Svört skýrsla um vistunarheimili

Vistheimilið Kumbaravogur.
Vistheimilið Kumbaravogur.

Meiri líkur en minni eru taldar á því að vistmenn Kumbaravogs, Bjargs og Heyrnleysingjaskólans hafi á vissum starfstíma heimilanna orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu starfsfólks eða utanaðkomandi aðila. Þetta kemur fram í skýrslu sem vistheimilisnefnd á vegum forsætisráðherra skilaði í dag.

Að mati nefndarmanna var þó ekki um jafn gróft ofbeldi að ræða og í tilviki Breiðavíkurheimilisins. Þrjú heimili voru tekin fyrir í skýrslunni, Heyrnleysingjaskólinn, Kumbaravogur og Bjarg. Að mati nefndarinnar komu fram ólíkar frásagnir frá vistmönnum Kumbaravogs og kom meirihluti vistmanna með jákvæða frásögn en minnihluti með neikvæða. Nenfdin dregur ekki úr neikvæðri reynslu vistmanna en dregur þá ályktun að vistmenn hafi ekki orðið fyrir ofbeldi starfsmanna heldur af gestkomandi á heimilið.

Í Heyrnleysingjaskólanum er kennslustefna talin hafa haft neikvæð áhrif á framtíð barnanna. Hópurinn hafi orðið félagslega einangraður og menntunarstig lægra. Í skólanum hafi eftirlit verið bágborið og líklegt að börn hafi orðið fórnarlömb kynferðislegs áreitis eða ofbeldis af hálfu samnemenda, starfsmanna eða utanaðkomandi.

Varðandi stúlknaheimilið Bjarg er talið að stúlkurnar hafi orðið fyrir niðurlægjandi framkomu og meiri líkur en minni á að þær hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu starfsmanna.

Skýrslan er byggð á gagnasöfnun og viðtölum við tugi vistmanna.  Það er m.a. afstaða nefndarinnar að sú kennslustefna sem tekið var mið af við kennslu í heyrnleysingjaskólanum og sá aðskilnaður sem ung heyrnarlaus börn þurftu að upplifa hafiverið þessum hópi afar þungbær. Nefndin telur engum vafa undirorpið að þessi aðstaða hafi átt verulegan þátt í að skerða lífsgæði þessara einstaklinga í íslensku samfélagi. 

Áfangaskýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert