Öllum kærum á hendur blaðamönnum vísað frá

Fjármálaeftirlitið kom í febrúar á framfæri við Ólaf Hauksson, sérstakan …
Fjármálaeftirlitið kom í febrúar á framfæri við Ólaf Hauksson, sérstakan saksóknara ábendingu um hugsanleg brot sex blaðamanna á bankaleynd. Kærunum hefur öllum verið vísað frá. mbl.is/Eyþór

Björn L. Bergsson, settur ríkissaksóknari í málum vegna bankahrunsins hefur vísað frá kærum á hendur sex blaðamönnum fyrir meint brot á lögum um bankaleynd. Forsendur frávísunar eru þrenns konar en niðurstaða setts ríkissaksóknara er endanleg.

Fjármálaeftirlitið kom í febrúar á framfæri við Ólaf Hauksson, sérstakan saksóknara ábendingu um hugsanleg brot á bankaleynd. Um var að ræða fimm kærur á hendur sex blaðamönnum, þeim Agnesi Bragadóttur og Þorbirni Þórðarsyni á Morgunblaðinu, Agli Helgasyni hjá RÚV, Kristni Hrafnssyni, þá fréttamanni Kompáss og þeim Reyni Traustasyni ritstjóra DV og Inga F. Vilhjálmssyni, blaðamanni DV.

Sérstakur saksóknari sendi Fjármálaeftirlitinu bréf 18. febrúar þar sem sagði að embættið myndi ekki hafast frekar að í málinu að svo stöddu. Tekið var fram að þessa ákvörðun mætti kæra til embættis ríkissaksóknara innan mánaðar. Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, hafi síðan greint frá því að ákvörðunin hafi ekki verið kærð til embættis hans innan þessa frests.

Málin voru kærð til Björns L. Bergssonar, setts ríkissaksóknara í málum vegna bankahrunsins. Í bréfi sem hann hefur sent Fjármálaeftirlitinu segir að málunum fimm á hendur blaðamönnum sé vísað frá.

Í málum Agnesar Bragadóttur og Kristins Hrafnssonar var um að ræða að eins mánaðar kærufrestur var löngu liðinn þegar kæra barst þann 14. ágúst. Engin ný gögn í skilningi sakamálalaga eða nýjar upplýsingar hafi fylgt kæru Fjármálaeftirlitsins. Því sé ekkert tilefni til endurupptöku málsins og sé kærunum vísað frá.

Í máli Egils Helgasonar var um það að ræða að þau gögn sem Egill birti féllu ekki undir vernd 58. grein laga um bankaleynd. Egill birti gögn um bankann sjálfan, þ.e. fundargerðir bankans en ekki upplýsingar um málefni viðskiptamanna sem viðkomandi grein laganna tekur til.

Í málum Þorbjörns Þórðarsonar, Morgunblaðinu og Reynis Traustasonar og Inga F. Vilhjálmssonar, DV, reyndi á ákvæði laga um meðferð blaðamannanna á trúnaðargögnum, hvort að blaðamönnunum hafi borið að gæta leyndar á gögnum sem þegar var búið að rjúfa leynd á. Það var mat setts ríkissaksóknara að svo væri ekki, þegar búið væri að rjúfa leynd á gögnum þá yrði hún ekki endurvakin í höndum annarra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert