Sigurður lætur af störfum

Sigurður Magnússon er hættur sem bæjarstjóri.
Sigurður Magnússon er hættur sem bæjarstjóri.

Bæjarstjórn Álftaness ákvað á fundi sínum í kvöldi að segja Sigurði Magnússyni bæjarstjóra upp störfum. Þetta var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Fjölmenni, eða bilinu 60-70 manns, var á fundinum í kvöld.

Lagt var til að Pálmi Másson, skrifstofustjóri og bæjarritari, taki við bæjarstjórastöðunni tímabundið og var það samþykkt.

Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórninni greiddu atkvæði með tillögunni og Margrét Jónsdóttir sem sagt hefur sig úr samstarfi við Álftaneslistann og starfar nú sem óháður bæjarfulltrúi.

„Mér finnst þetta algjör ábyrgðarleysi,“ segir Kristín Fjóla Bergþórsdóttir bæjarfulltrúi Álftaneslistans sem eftir fundinn í gærkvöldi sagði af sér embætti forseti bæjarstjórnar.

Lagt var til að Kristinn Guðlaugsson, sem er í þriðja sæti D-lista, tæki embætti forseta að sér. Var það samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir stöðuna óskemmtilega. Ekki sé búið að taka ákvörðun um framhaldið.  „Það heldur bara áfram þessi krísa, og menn verða bara gjöra svo vel að setjast niður. Hvort sem það verður á morgun eða hinn, eða hvað,“ segir hann í samtali við mbl.is. Menn séu að sjálfssögðu að reyna að finna flöt á málinu. „En við höfum ekki fundið taktinn ennþá,“ bætir Guðmundur við.

„Því miður er ekki á borðinu að við fjögur [þrír fulltrúar D-lista ásamt Margréti Jónsdóttur] séum komin með í hendi einhverslags yfirlýsingu. Þannig að þetta er alveg óskaplega snúið,“ segir Guðmundur og segir að fulltrúarnir hafi tekist grimmilega á um bæjarsjóðinn. Það hafi mengað samtöl bæjarfulltrúanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert