Kaupþing kært fyrir stórfelld fjársvik

Gamla og nýja Kaupþing hefur verið kært til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir stórfelld fjársvik gegn almenningi. Það eru hjón í Kópavogi sem lögðu fram kæruna sl. mánudag. Fleiri kærur eru í farvatninu, segir lögmaður hjónanna.

Björn Þorri Viktorsson, lögmaður hjónanna, heldur því fram bankar og fjármögnunarfyrirtæki hafi með ólögmætum hætti veitt almenningi gengistryggð lán. Í því felist brot á lögum um vexti og verðtryggingu.

Hann segir að svo virðist sem að stóru viðskiptabankarnir þrír hafi ekki tekið stöðu gegn íslensku krónunni í hefðbundnum skilningi. „Heldur er þetta markaðsmisnotkun. Það lítur allt út fyrir það,“ segir Björn Þorri í samtali við mbl.is.

Bankarnir hafi verið að eiga viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri sem engin efnisleg þörf hafi verið fyrir. „Viðskiptin hafi verið framkvæmd beinlínis í þeim tilgangi að hafa neikvæð áhrif á gengi krónunnar,“ segir hann. Þannig hafi bankarnir haft fé af viðskiptavinum sínum sem hafi gengist undir lánasamninga, bæði hvað varði gengistryggingu og verðtryggingu.

Aðspurður segir Björn Þorri að hjónin hafi tekið 23 milljóna kr. lán í erlendri mynt árið 2007. Það standi nú i 58 milljónum kr. „Þetta er bara staðan hjá tugþúsundum Íslendinga. Það er gjörsamlega búið að þurrka upp eignir þeirra,“ segir hann.

„Þetta eru stórfelld fjársvik, sé þessi grunur okkar réttur,“ segir Björn Þorri. Hann segist vera búinn að kalla eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um viðskipti einstakra banka, t.d. í mars og september 2008. Þá hafi verið framkvæmd meiriháttar viðskipti með gjaldeyri, eða sem nemur 1.200 milljörðum kr. í einum mánuði. Þetta nemi áttföldu útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða.

Hann vill að opinberir aðilar kalli til sín þá aðila sem beri ábyrgð á þessu og fái skýringar á þessum viðskiptum. „Hvaða skýringar eru tiltækar á því að menn voru að kaupa og selja gjaldeyri, sem er langt umfram gjaldeyrisforða Seðlabankans. Þessi gjaldeyrir var ekki til. Þeir eru raunverulega að kaupa og selja sama gjaldeyrinn ítrekað,“ segir Björn Þorri og bætir við að þarna virðist hafa verið um markaðsmisnotkun að ræða.

Að sögn Björns Þorra var málið kært til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Afrit var sent til sérstaks saksóknara, rannsóknarnefndar Alþingis, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins. Aðspurður segist Björn Þorri ekki hafa fengið nein viðbrögð enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert