„Allir lækir eins og stórfljót"

Vatnavextir í Steinholtsá árið 2007. Myndin er frá lögreglunni á …
Vatnavextir í Steinholtsá árið 2007. Myndin er frá lögreglunni á Hvolsvelli.

Gríðarlegir vatnavextir eru í ám á leiðinni inn í Þórsmörk og segir Ragnheiður Hauksdóttir, staðarhaldari í Húsadal að allir lækir séu eins og stórfljót. Varar hún fólk við að fara inn í Þórsmörk í dag án þess að hafa samband við skálaverði þar áður en lagt er af  stað enda ófært í augnablikinu. 

Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu um að Krossáin sé ófær en aka þarf yfir hana á leiðinni inn í Húsadal og Langadal. Hins vegar þarf ekki að fara yfir Krossá á leiðinni inn í Bása. 

Að sögn Ragnheiðar er Steinholtsáin enn verri yfirferðar nú heldur en Krossáin. Þau hafi farið yfir hana í morgun á risastórum jeppa og vatnið hafi náð upp á miðjar rúður. Öll vöð séu horfin í vatnsveðrinu og vinna skálaverðir nú að því að finna ný vöð. Gríðarlegt úrhelli hefur verið í Þórsmörk frá því í gærkvöldi og ljóst að ekki verður fært þangað fyrr en síðar í dag.

Hópur danskra grunnskólanema er staddur í Langadal en hópurinn er hér í heimsókn hjá níunda bekk í Foldaskóla. Samkvæmt upplýsingum frá Foldaskóla amar ekkert að nemendunum en hann á að fljúga heim til Danmerkur síðdegis á morgun. Vonir standa til að þau komi til Reykjavíkur síðar í dag þegar búið er að finna gott vað fyrir rútur yfir Steinholtsána.

Hópur hestamanna er í Húsadal að sögn Ragnheiðar en von er á stórum hópum þangað í kvöld. Verður væntanlega ekki ljóst fyrr en eftir hádegi hvort þeir hópar komist inn í Þórsmörk í dag.

Lögreglan á Hvolsvelli vill vara vegfarendur sem ætla að leggja á hálendisleiðir nú í dag og um helgina við færð á svæðinu og hvetur fólk til að kanna með færð á þessum leiðum áður en lagt er af stað. Gríðarleg úrkoma er á svæðinu og hafa vötn og ár margfaldað rennsli sitt og eru því orðin hættuleg yfirferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert