Anna Kristine þjófkennd í verslun

Anna Kristine Magnúsdóttir fékk morðhótanir þegar hún skrifaði um vistheimilið að Kumbaravogi. Þá tilkynnti Landsbankinn að greiðslukortið hennar væri stolið og munaði minnstu að hún væri handtekin í verslun vegna þess. Anna Kristine telur að atvikið hafi tengst skrifum hennar um heimilið.

Í  bankanum vísaði hver á annan, en hún skrifaði meðal annars Björgólfi Guðmundssyni til að fá skýringar. Hún segir að aðstoðarmaður hans hafi síðan spurt hana að fyrra bragði hvort hún setti þetta í samband við að annar bankastjóranna, Halldór J. Kristjánsson væri sonur forstöðumannsins að Kumbaravogi. Atvikið var aldrei kært og ekki kölluð til lögregla í verslunina eftir að þjóðþekkt kona gaf sig fram í röðinni og bauðst til að lána henni fyrir vörunum. Anna Kristine segist hafa yfirgefið verslunina við svo búið en upplifað mikla niðurlægingu við að vera þjófkennd.

Spurð um ástæðu þess að DV fjallaði ekki um málið á sínum tíma, segist hún hafa verið í losti og fundist atburðurinn niðurlægjandi. Lögfræðingur hennar hafi sagt að hún hafi gert mistök með því að láta ekki kalla til lögreglu í verslunina og sjálfsagt hafi Sigurjón M. Egilsson viljað sýna henni tillitsemi með því að láta kyrrt liggja. Hann hafi þó sagt það skýrt út að hann teldi ákveðin öfl vera að vega að tjáningarfrelsinu og prentfrelsinu með þessu.

Hún segir að henni hafi fundist málið vera eins og farsi. Hún hafi ekki haldið að svona gæti gerst á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert