Grænlenskur kór í heimsókn

Frá höfninni í Qaqortoq (Julianehåb) í Suður-Grænlandi.
Frá höfninni í Qaqortoq (Julianehåb) í Suður-Grænlandi. Ómar Óskarsson

Grænlenski kórinn Erinnap Nipaa frá Qaqortoq á Suður-Grænlandi heldur þrenna tónleika hér á landi á næstunni, segir í fréttatilkynningu. Þeir fyrstu verða í Seltjarnarneskirkju sunnudagskvöldið 13. september nk. kl. 20 og eru í boði Listvinafélags kirkjunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem kórinn heimsækir Ísland, en tilgangur heimsóknarinnar er að styrkja menningartengsl landanna í kjölfar aukins sjálfstæðis Grænlands.

Í Erinnap Nipaa eru fimmtán söngvarar og stjórnandi er Jens Adolfsen. Með kórnum kemur einnig hinn 73 ára gamli trommudansari, Jerimias Sanimuinaq, sem sýna mun listir sínar. Kórinn mun einvörðungu flytja grænlenska söngva, sem eru mjög forvitnilegir fyrir okkur Íslendinga. Flestir kórfélaganna klæðast grænlenskum þjóðbúningi, en búningur grænlenskra kvenna er einhver sá litríkasti í heimi.

,,Á mánudag verða tónleikar kórsins í Norræna húsinu kl. 20 og daginn eftir í Tónlistarhúsinu á Akranesi kl. 15. Akranes er vinarbær Qaqortoq. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis. Erinnap Nipaa mun einnig syngja fyrir forseta Íslands á Bessastöðum nk. laugardag.

Bærinn Qaqortoq (á dönsku Julianehåb) er stærsti bær Suður-Grænlands og er á því svæði sem norrænir menn settust að fyrr á öldum. Í Qaqortoq búa nú á fjórða þúsund manns. Nafnið Qaqortoq þýðir hið hvíta.

 Bærinn var stofnaður árið 1775 sem danskur verslunarstaður, en hann þjónar nú einnig sem aðal menntasetur Grænlands með menntaskóla, verslunarskóla og háskóla. Í næsta nágrenni er Hvalsey, sem er einn af þekktari stöðum frá tímum norrænna manna á Grænlandi. Þar eru m.a. uppistandandi rústir af kirkjustaðnum í Hvalsey."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert