Bíræfnir búðarþjófar

Búðarþjófar stela fyrir átta milljarða úr verslunum á hverju ári. Verslanirnar standa ráðþrota gagnvart vandanum því lögreglan hefur ekki bolmagn til að sinna þessu.

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að þjófar hafi mætt í matvöruverslun síðast í morgun, fyllt innkaupakerru af dýrustu matvælum sem er að finna í versluninni, keyrt hana á ógnarhraða í gegnum búðina, út á götu þar sem vörunum var sturtað í skottið á bíl sem beið fyrir utan og brunað burt. Þetta er aðeins lítið dæmi úr þjófnaðarsögu morgunsins.

Kaupmenn  vilja að öryggisverðir í verslunum fái heimild til að ljúka málum með sekt en Dómsmálaráðuneytið er að skoða málið. Andrés segir að á síðustu árum hafi orðið sú breyting að skipulög glæpagengi skipuð útlendingum steli um áttatíu til níutíu prósentum af þeim verðmætum sem fari forgörðum. Það sé síðan bitur staðreynt að lögreglan ráði ekki við þessi mál.

Í Húsamiðjunni einni er stolið fyrir allt að tvöhundruð milljónir á hverju ári. Dæmi eru um að þjófarnir sýni ótrúlega bífræfni. Eftirlitsmyndavélar Húsamiðjunnar suða allan daginn í 26 verslunum fyrirtækisins en þrátt fyrir þetta ná þjófarnir að komast óséðir burt með dýran varning.

Þrír menn á Nissan Patrol jeppa stálu bílakerru fyrir eina milljón króna í síðustu viku. Mennirnir tengdu kerruna aftan í jeppann um hábjartan dag og óku burt. Lögreglan hefur fengið myndir af þeim úr eftirlitsvélum.

Eitt myndskeið náðist af manni sem mætir með hundinn sinn og risastórar klippur. Hann klippir á á vírafestingar á hjólakerru sem er fyrir framan búðina og sést teyma hana burt án þess að nokkurn tímann sjáist í andlit hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert