Ræða minnkað vægi verðtryggingar

Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í efnahags- og skattanefnd og …
Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í efnahags- og skattanefnd og Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar og formaður nefndarinnar.

„Það segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að skoða skuli leiðir til að draga úr vægi verðtryggingarinnar og Seðlabankinn er eitthvað byrjaður að skoða það. Þeir munu kynna nefndinni sjónarmið bankans í þessum efnum á morgun,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis. Nefndin þingar á morgun um skuldavanda heimilanna og verðtryggingu og fær fulltrúa Seðlabankans á sinn fund.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og vinstri hreyfingarinnar græns framboðs segir m.a. að dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum, samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána. Þá segir að óskað verði eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.

„Verðtryggingin hefur verið mjög umdeild í þau 30 ár sem hún hefur verið við lýði. Ég ætla nú ekki að fara að boða tillögur um afnám hennar hér og nú en það er tímabært að hefja einhverja umfjöllun þar um,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar.

Hann segir að Seðlabankinn hafi unnið töluvert í því að greina skuldavanda heimilanna. Efnahags- og skattanefnd muni fara yfir mat bankans á stöðunni og þeim möguleikum sem uppi eru til að taka á vandanum. Þá segir Helgi að unnið sé að tillögum til úrlausnar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vonandi komi tillögur til kasta Alþingis strax í þingbyrjun í október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert