Samningurinn samþykktur í borgarstjórn

Fjöldi fólks fylgdist með umræðu um sölu á hlut Orkuveitunnar …
Fjöldi fólks fylgdist með umræðu um sölu á hlut Orkuveitunnar í HS Orku á fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Heidar

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur staðfest samninginn um sölu á 31% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma Energy Sweden,  sænsks dótturfélags kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy Corporation, með átta atkvæðum meirihlutans gegn sjö minnihlutans.

Í kjölfarið var kallað af áhorfendapöllum í Ráðhúsinu: Vanhæf borgarstjórn, vanhæf borgarstjórn.  Þrír úr hópi áhorfenda voru handteknir eftir að salernisrúllu var kastað af áhorfendapöllum í fundarsalinnn.

Var hlé gert á fundinum um stund, á meðan verið var að róa niður áhorfendur á pöllunum. Fundarstörf hafa hafist að nýju, þar sem verið að ræða einkarekna grunnskóla.

Um tíma voru frammíköll mikil og meðal þess sem áhorfendur hafa kallað: „Djöfull megiði vera stolt af því sem þið hafið gert í dag."

Í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra segir, að með samningnum á sölu Orkuveitunnar á hlutnum í HS Orku sé greitt úr óvissu sem ríkt hafi eftir að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Orkuveitan mætti ekki eiga svo stóran hlut í HS Orku. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi engu að síður dæmt fyrirtækiðr til að standa við samninga um kaup á hlutnum.

Borgarstjóri segir að Orkuveitan hafi lagt áherslu á að með sölunni sé verið að virða úrskurð samkeppnisyfirvalda og samkeppnislög, leysa ágreining fyrirtækisins við Hafnarfjarðarbæ og styrkja fjárhagsstöðu Orkuveitunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert