Auglýst eftir húsnæði undir fangelsi

mbl.is/Brynjar Gauti

Dómsmálaráðuneytið ætlar að leigja húsnæði undir fangelsi með 10 til 20 fangelsisplássum og verður auglýst eftir húsnæðinu á næstu dögum. Haft var eftir Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra í hádegisfréttum RÚV að það væri óviðunandi að ekki væri pláss fyrir fanga í fangelsum landsins.

Biðlisti afplánunarfanga hefur lengst umtalsvert að undanförnu og bíða nú á þriðja hundrað brotamenn eftir afplánun. Fangelsi landsins eru yfirfull og hafa fangar ekki verið boðaðir til afplánunar í margar vikur.

Dómsmálaráðherra, segir stöðuna óviðunandi og við henni þurfi að bregðast strax. Því verði skoðað hvort ekki sé hægt að leigja húsnæði undir bráðabirgðafangelsi. Í framtíðinni verði hins vegar að byggja nýtt fangelsi.

Fram kom í Morgunblaðinu á dögunum að verið að kanna þann möguleika að nýtt fangelsi verði reist af einkaaðilum á höfuðborgarsvæðinu og Fangelsismálastofnun leigi það til langs tíma, t.d. 30-40 ára. Fangelsismálastofnun muni því ekki eiga húsnæðið, heldur reka það. Hugmyndin er sú að þar verði pláss fyrir 40 fanga, fyrst og fremst gæsluvarðhaldsfanga og fanga í skammtímaafplánun. Verði þetta að veruleika verður framkvæmdin boðin út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert