Dómur mildaður yfir ökukennara

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur mildað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Hauki Helgasyni, ökukennara á sextugsaldri sem sakfelldur var fyrir kynferðisbrot gegn fjórum nemendum sínum, piltum á aldrinum 14 til 17 ára. Hæstiréttur dæmdi manninn í tveggja ára fangelsi sem er ári styttra en Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hæfilega refsingu.

Hæstiréttur leit meðal annars til þess að rannsókn lögreglu á brotum mannsins hófst ekki fyrr en fyrningartími þeirra var nærri fullnaður. Auk þess hafi hann ekki áður unnið sér til refsingar.

Grunur lék á að maðurinn hafi brotið gegn fleiri piltum en þeim fjórum sem vildu gefa skýrslu hjá lögreglu. Brotin framdi hann á löngum tíma. Þau grófustu á árunum 1996-1998. Síðast var vitað um brot hans árið 2002.

Haukur var dæmdur fyrir kynferðismök gegn tveimur piltanna og fyrir að hafa tekið klámfengnar ljósmyndir af öðrum. Þá fundust tæplega fjögur þúsund ljósmyndir í tölvu hans sem sýndu börn á klámfenginn hátt.

Hæstiréttur dæmdi Hauk auk þess til að greiða tveimur piltanna eina milljón króna í miskabætur og hinum tveimur 400 þúsund kr.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert