Fréttaskýring: Grænn farmiði inn í framtíðarlandið

Þremur árum eftir að hagfræðingurinn Nicholas Stern hristi upp í heimsbyggðinni með skýrslu sinni um efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga virðast umhverfismálin vera að finna sér leið að hjarta Íslendinga. Aldrei hefur verið meira framboð á fyrirlestrum, ráðstefnum, námskeiðum og alls kyns samkomum um umhverfismál og aðsóknin er mikil.

Heimsókn nóbelsverðlaunahafans og formanns loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, dr. Rajendra K. Pachauri, hingað til lands nú um helgina er aðeins ein af fjölmörgum uppákomum á misserinu og fleiri „alþjóðlegar kanónur“ hafa verið hér eða eru væntanlegar. Hátt í tíu eða fleiri málþing og ráðstefnur hafa verið skipulögð nú á haustmisseri og þá eru aðeins nefndar þær sem þegar hafa verið auglýstar. A.m.k. tvær fyrirlestraraðir eru að auki í gangi með vikulegum erindum og þá eru ótalin ýmis námskeið víða um land.

Eygi von um nýsköpun

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur telur að aukinn áhuga megi að mestum hluta rekja til þeirrar kreppu sem Íslendingar eru nú í. „Fólk leitar í eitthvað heildstætt eða varanlegt því það má segja að skammtímasjónarmið hafi orðið gjaldþrota í hruninu.“ Þá eygi fólk von um nýsköpun í græna geiranum. „Það gildir bæði um almenning og fjárfesta í öllum hinum vestræna heimi. Sumir þeirra sem sækja atburðina eru atvinnulausir sem hafa tíma og horfa í kring um sig eftir nýjum tækifærum. Þeir vita að farmiðinn inn í framtíðina er grænn.“

Margt af því sem nú er í algleymingi er þó ekki ný vísindi, svo sem umræðan um visthæf farartæki sem gríðarlegur áhugi skapaðist á í kjölfar ráðstefnu hér á landi í síðustu viku. „Menn hafa talað um þetta í mörg ár en enginn viljað hlusta,“ segir Stefán. Enda hefur áhugi Íslendinga á loftslagsmálum hingað til þótt hverfandi, líka á árunum 2006 og 2007 þegar skýrslur Sterns og loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna komu út og ollu mikilli vakningu á alþjóðavísu. Vissulega fór fram umræða í fjölmiðlum um skýrslurnar sem og kvikmynd Als Gores um hlýnun loftslags en efasemdaraddir hljómuðu á sama tíma hátt. „Nú held ég að menn séu að átta sig á að þetta er ekki nein vitleysa,“ segir Stefán.

Hann bætir því við að þótt almenningur sé e.t.v. lítið meðvitaður um loftslagsráðstefnuna sem fram fer í Kaupmannahöfn í desember, þar sem leiðtogar heims hyggjast komast að samkomulagi sem taka á við af Kyoto-bókuninni, þá hafi hún sín áhrif á umræðuna.

Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í meistaranámi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, segir aðsókn í námið hafa tvöfaldast á einu ári. „Þetta er vakning sem er loksins að koma til Íslands. Það er gríðarlegur áhugi.“ Sömu sögu er að segja af grunnnámi í umhverfis- og orkufræði við Háskólann á Akureyri. Þar stunduðu 24 námið í fyrra en 42 nú. Þá eru ótalin námskeið Endurmenntunarstofnunar og annarra.

Sérfróður um nýtingu auðlinda

Það er óhætt að segja að heimsókn dr. Rajendra K. Pachauri hingað til lands um helgina sé stórviðburður í umhverfisgeiranum. Dr. Pachauri tók árið 2007 við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sem hann veitir forystu, um leið og Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, fékk sömu verðlaun. Dr. Pachauri er sömuleiðis forstöðumaður vísinda- og tæknistofnunarinnar TERI í Delhi á Indlandi sem hefur gert samstarfssamning við Háskóla Íslands, en sérsvið TERI eru rannsóknir á orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Dr. Pachauri flytur opinn fyrirlestur í hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands í dag kl. 11.30.

Dr. Rajendra K. Pachauri ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands …
Dr. Rajendra K. Pachauri ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Kristínu Ingólfsdóttur, rektor HÍ.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert