Ganga frá Ísafirði til Reykjavíkur

Jón og Hjálmar ofan Hattardals á leið milli Álftafjarðar og …
Jón og Hjálmar ofan Hattardals á leið milli Álftafjarðar og Hestfjarðar. mynd/bb.is

Jón Björnsson, landvörður á Hornströndum, og Hjálmar Forni Sveinbjörnsson, nemi í Grunnskólanum á Ísafirði, eru lagðir af stað gangandi frá Ísafirði til Reykjavíkur og fara yfir fjöll og firnindi.

„Við lögðum af stað eftir hádegi á fimmtudag og fórum fyrsta áfangann sem var í Hestfjörð, haldið var svo áfram á föstudag og fórum við þá frá Hestfirði og yfir í Skötufjarðarbotn. Næsti dagur var Skötufjarðarbotn yfir í Mjóafjörð, síðan Heydalur, yfir Eyrarfjall og að vegamótum að Bæjum. Við ætlum að klára Steingrímsfjarðarheiði í dag og komast í Þorskafjörðinn í kvöld,“ sagði Jón í samtali við Bæjarins besta.

Þeir hafa mestmegnis gist í tjöldum utan eina nótt þegar þeir voru í Heydal, þá gistu þeir í svefnpokaplássi. Þeir bera á sér létta bakpoka með því nauðsynlegasta og hafa fengið góða vini og ættingja til að sjá um að skutla stóru bakpokunum á áfangastaði. Jón bætir við að þeir séu að komast á beinu leiðina núna, fjöllin eru á enda þar sem að þeir eru búnir með Djúpið.

„Við erum að ganga um 40 kílómetra á dag eða meira og áætlum að verða komnir til Reykjavíkur næsta sunnudag ef allt gengur vel.“

Vefur Bæjarins besta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert