Kolefnislosun Landsvirkjunar 1,3% af heildarlosun Íslands

Búrfellsvirkjun er ein af virkjunum Landsvirkjunar.
Búrfellsvirkjun er ein af virkjunum Landsvirkjunar. mbl.is/Ómar

Heildarlosun frá starfsemi Landsvirkjunar er ígildi tæplega 76.000 tonna af CO2. Er þá bæði talin með losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, losun frá lónum vatnsaflvirkjana og útstreymi frá gufuaflsvirkjunum, en hluti af því útstreymi er náttúrlegt úrstreymi frá jarðhitasvæði.

Þessi heildarlosun Landsvirkjunar er um 1,3% af heildarlosun Íslands eins og hún er gefin upp í útstreymisbókhaldi landsins. Fram kemur á vef Landsvirkjunar að þetta sé athyglisvert út frá þeirri staðreynd að Landsvirkjun framleiði yfir 70% af raforku landsins.

Þetta kemur fram í loftslagsbókhaldi Landsvirkjunar fyrir árið 2008, sem ber heitið Kolefnisspor Landsvirkjunar.

Fram kemur á vef Landsvirkjunar að þetta sé annað árið sem Landsvirkjun gefi út loftslagsbókhald fyrir starfsemi sína og með þessu vilji fyrirtækið sýna fordæmi þeim sem vilji halda bókhald um kolefnislosun sína.

Stefnt sé að því að gera starfsemi Landsvirkjunar kolefnishlutlausa.

Einnig kemur fram í skýrslunni að losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis hjá Landsvirkjun sé ígildi tæplega 1.400 tonna af CO2. Þá sé talin öll losun frá farartækjum og vélum fyrirtækisins ásamt losun vegna flugferða starfsmanna.
 
Raforkuvinnsla í vatnsaflsvirkjunum Landsvirkjunar losi um á bilinu 450-900 sinnum minna af gróðurhúsalofti á orkueiningu en kolaorkuver. Fyrir jarðhitavirkjanir Landsvirkjunar er þessi tala 9 sinnum lægri en í kolaorkuveri.
 
Með tilkomu Hálslóns hafi losun frá lónum aukist um 90% en rannsóknir sýni jafnframt að losun gróðurhúsalofts úr lónum fyrirtækisins sé einungis um 30% af því sem alþjóðleg viðmið geri ráð fyrir.

Þá komi fram að rannsóknir sýni að ræktun og uppgræðsla sem Landsvirkjun hafi staðið að á undanförnum árum bindi um 68% af því kolefni sem losni vegna raforkuvinnslu í vatnsaflsstöðvum fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert