„Ögrun við stöðugleikasáttmálann"

Vilhjálmur Egilsson, Gylfi Arnbjörnsson og Ólafur Darri Andrason koma út …
Vilhjálmur Egilsson, Gylfi Arnbjörnsson og Ólafur Darri Andrason koma út úr ráðherrabústaðnum í gær mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að sú ákvörðun Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum, sé ögrun við stöðugleikasáttmálann sem ríkisstjórnin, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér í sumar. Samkvæmt honum skal stefnt að því að stýrivextir fari niður í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember. 

Ríkisstjórnin hlýtur að beita sér

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 5. nóvember en ekki er útilokað að bætt verði við vaxtaákvörðunardegi í október. Aðspurður um hvort forsendur stöðugleikasáttmálans séu ekki brostnar segist Vilhjálmur ekki vilja segja neitt þar um fyrr en 1. nóvember.  Hann telur að ríkisstjórnin hljóti að beita sér gagnvart Seðlabankanum verði þetta raunin, það er ef stýrivextir verði áfram 12%.

Vilhjálmur segir að forsendur hafi ekki breyst í frá því í sumar þegar sett var inn í stöðugleikasáttmálann ákvæði um það að aðilar vinnumarkaðarins myndu treysta því að vextirnir yrðu komnir niður í eins stafs tölu þann 1. nóvember. „Það er engin tilviljun að þetta ákvæði var sett inn," segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is

Hátt vaxtastig framlengir kreppuna

Hann segist líta svo á að þetta vaxtastig framlengi kreppuna og valdi því að hér ríki áfram samdráttur.

„Fyrirtæki eru ekki að fjárfesta eða bæta við á grundvelli þessa vaxtastigs. Fyrir fyrirtæki sem séu í erfiðleikum þá stækkar þetta afskriftahauginn sem bankarnir þurfa að afskrifa.

Fyrir fyrirtæki sem eru í góðum rekstri og gætu verið að fjárfesta þá taka þau ekki peninga að láni á grundvelli þessara vaxta. Með því er verið að framlengja kreppunni. Seðlabankinn er að búa til samdrátt með þessu.

Við teljum að það þyrfti ekki að vera samdráttur á næsta ári og í stöðugleikasáttmálanum erum við að reyna að stuðla að hagvexti á næsta ári. En með þessu er Seðlabankinn í rauninni að leggja drög að því að það verði samdráttur á næsta ári og við komumst ekki út úr kreppunni," segir Vilhjálmur. 

Fleiri fyrirtæki í þrot

Að sögn Vilhjálms fylgja þessu gjaldþrot fyrirtækja og það sé beinlínis háskalegt að ætla sér að hækka skatta á sama tíma líkt og til standi. 

Hann vill þó ekki spá því að fólksflótti bresti hér á en að eitthvað verði um að fólk og fyrirtæki yfirgefi landið. Eins auki þetta ekki aðdráttarafl Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert