Þjóðlenda á Brúaröræfum

Úr Kringilsárrana og Snæfell í bakgrunni.
Úr Kringilsárrana og Snæfell í bakgrunni. Ragnar Axelsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð óbyggðanefndar um land jarðarinnar Brúar á Jökuldal. Eigendur Brúar I og II stefndu ríkinu til ógildingar á úrskurðinum og viðurkenningar á eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar.

Um er að ræða tvö svæði sem talin voru liggja innan marka þjóðlendu. Auk þess hluta Vatnajökuls sem málið tók til.

Annað svæðið  liggur milli Jökulsár á Jökuldal og landamerkja Laugarvalla í austri, Brúarjökuls í suðri, Kverkár og Kreppu í vestri og að norðan innan línu, sem dregin var eftir tilgreindum hæðarpunktum. Fyrir óbyggðanefnd höfðu bændurnir lýst þessu landsvæði sem hluta jarðarinnar.

Norðurmörk þjóðlendu voru þó ákveðin sunnar á þessu svæði en ríkið hafði dregið kröfulínu sína.

Bændurnir höfðuðu mál og kröfðust þess að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar að því er varðaði þjóðlendu á landsvæði, sem nefnt hefur verið Brúaröræfi innan tilgreindra marka og viðurkenningar á því að á Brúaröræfum væri engin þjóðlenda.

Til vara gerðu þeir sams konar tvíþætta kröfu, sem tók aðeins til austasta hluta landsvæðisins og markaðist af Jökulsá á Jökuldal í austri, Sauðá að vestan og Vatnajökli í suðri.

Ríkið var sýknað af kröfum landeigendanna í Héraðsdómi Austurlands og Hæstiréttur hefur nú staðfest héraðsdóminn. 

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert