Ísland verði eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims

Stefnt er að því að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020. Þetta er liður í ætlun stjórnvalda sem kallas „20/20 - Sóknaráætlun fyrir Ísland“. Um er að ræða verkáætlun um hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi.

Verkefnið er liður í efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar og hefur að markmiði að Ísland skipi sér á ný í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og sönnum lífgæðum.

Sviss er nú í efsta sæti yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heimsins, samkvæmt mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum, WEF) í Genf. Ísland fellur um sex sæti yfir samkeppnishæfni þjóða, úr 20. sæti í 26. sæti, og er neðst Norðurlandaþjóðanna fimm.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra kynnti sóknaráætlunina á morgunfundi sem ríkisstjórn Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands stóðu að. Dagur B. Eggertsson er formaður stýrihóps þessa verkefnis.

Katrín segir að stefnt sé að því að kalla fram sameiginlega framtíðasýn og leggja mat á styrkleika og tækifæri Íslands. 

Katrín segir að unnið sé að því að skilgreina verkefnið og átta sig á stöðunni. Áætlunin snerti ekki aðeins hörðu málin, heldur einnig félags-, heilbrigðis- og menntamál.

Hún segir ljóst að ákveðið gildismat hljóti að liggja til grundvallar sóknaráætlunni og því sé mikilvægt að skilgreina hvaða gildi verði ráðandi í íslensku samfélagið árið 2020.

Unnið er að því að kynna verkefnið og þá er stefnt að því að halda þjóðfund 14. nóvember. Um er að ræða samtal við almenning til að ræða gildismat þjóðarinnar. Fundurinn yrði undir forystu umhverfisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert