„Þetta er hrikalegt“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, aðstoðaði við að bjarga munum út …
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, aðstoðaði við að bjarga munum út úr húsinu. mbl.is/Júlíus

„Þetta er hrikalegt,“ sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar. Hann er inni í Höfða og vinnur ásamt öðrum að því að bjarga dýrmætum munum út úr húsinu. „Það er verið að bera út alla muni hér í húsinu, það eru allir í því.“

Vilhjálmur sagði að töluvert vatn læki niður á 1. og 2. hæð hússins. Það var ekki farið að renna niður í kjallarann. Hann taldi að tekist hafi að bjarga öllu óskemmdu úr Höfða.

„Það er búið að bjarga öllum málverkum og öðru hér af 1. og nánast 2. hæðinni. Það lekur töluvert vatn niður á 1. hæðina og er verið að sækja vatnssugu til að ná því upp,“ sagði Vilhjálmur.

„Það hafa engar sýnilegar skemmdir orðið hér á 1. og 2. hæðinni. Eldurinn er efst uppi í rjáfrinu.“ Vilhjálmur sagði að ekki væri mikill reykur inni í húsinu, en hann virtist vera mestur í kjallaranum. Hann var staddur í herberginu þar sem Reagan og Gorbatsjof héldu fundi sína. Þar var nánast enginn reykur.

Meiri reykur var á annarri hæðinni en þeirri fyrstu en ótrúlega lítill miðað við reykjarkófið fyrir utan húsið. Vilhjálmur sagði að þó hafi alveg verið hægt að ganga um aðra hæðina. Þar var verið að bjarga merku postulínssafni og taldi Vilhjálmur það ekki vera í hættu þegar talað var við hann. Verið var að bera lampa og aðra muni af annarri hæðinni.

Engir dýrmætir munir voru taldir vera geymdir í rjáfrinu þar sem eldurinn kom upp. 

Ellefu sendibílar voru fyrir utan Höfða að sækja munina, að sögn blaðamanns Morgunblaðsins á staðnum. Töluverður eldur er enn í húsinu að sögn varðstjóra slökkviliðsins. 

Slökkviliðsmenn og aðrir viðstaddir eru að bera út málverk og …
Slökkviliðsmenn og aðrir viðstaddir eru að bera út málverk og aðra muni úr húsinu. mbl.is/Júlíus
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson forseti borgarstjórnar.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson forseti borgarstjórnar. Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert