Vandasamt slökkvistarf

Slökkvistarfið í Höfða var vandasamt, að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hann sagði að samtímis hafi verið unnið að slökkvistarfi og verðmætabjörgun.

Slökkviliðið fékk tilkynningu um eldinn kl. 17.40 og var búið að slökkva eldinn um klukkustund síðar. Þegar rætt var við Jón Viðar laust eftir kl. 19.00 stóð verðmætabjörgun enn yfir. 

„Það var töluvert vatn sem fór þarna inn, en þó ótrúlega lítið miðað við það slökkvistarf sem var í gangi. Verðmætin í húsinu sjálfu eru gífurlega mikil en verðmæti þess sem var inni í húsinu voru ekki minni,“ sagði Jón Viðar.

Hann sagði að slökkvistarfið og verðmætabjörgunin hafi farið fram samtímis. „Borgarstjórinn, forseti borgarstjórnar og kjörnir fulltrúar ásamt starfsmönnum borgarinnar unnu ötullega með lögreglunni og slökkviliðsmönnum að því að koma þessum verðmætum út. Það lögðust allir á eitt.“

Jón Viðar sagði að þeir sem þekktu best til í Höfða hafi veitt sérfræðiþekkingu um hverju ætti að bjarga fyrst og hverju mætti bjarga síðar. Húsið var tæmt af húsgögnum, málverkum og öðrum listmunum.

Jón Viðar treysti sér ekki til að meta skemmdirnar á húsinu á þessari stundu. Hann sagði að brunaskemmdirnar séu staðbundnar í þaki og millilofti á háalofti. Vatnsskemmdir urðu á öðrum stöðum í húsinu.

Eldurinn var á millilofti á háaloftinu. Húsið er kjallari, hæð og ris. Fyrir ofan risið er háaloft. Eldurinn var í millilofti sem skilur á milli rishæðarinnar og háaloftsins. 

„Tveir reykkafarar skriðu inn á háaloftið til að taka á móti eldinum þar. Það var ansi heitt, en menn þurftu að passa að eldurinn færi ekki í allt þakið.

Þetta var mjög erfitt verkefni en líka flókið. Það var bæði verið að slökkva eldinn og bjarga verðmætum á sama tíma,“ sagði Jón Viðar. Hann sagði ekki hægt að svo stöddu að kveða upp úr um hvað olli eldinum. Jón Viðar taldi að það kæmi í ljós síðar í kvöld eða á morgun.

Slökkviliðsmenn á vakt komu örfáum mínútum eftir að útkallið barst. Síðan var hringd svonefnd „stór úthringing“, sem þýðir að allir slökkviliðsmenn á frívakt eru kallaðir út. Tæki komu af öllum slökkvistöðvum höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal sérstakur verðmætabjörgunargámur.

Jón Viðar taldi að 80-100 slökkviliðsmenn hafi verið á staðnum. Auk slökkviliðs og lögreglu lögðu margir borgarar lið við björgunarstarfið. Jón Viðar sagði ljóst að þarna hafi vel á annað hundrað manns unnið við slökkvi- og björgunarstörf.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert