Stefnt að fundi fjármálaráðherranna

Steingrímur J. Sigfússon, frjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, frjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

 Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að lýsing Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á stöðu Icesave-málsins sé rétt og engu við hana að bæta. Jóhanna sagði í dag að tilraun til að ná fram lausn málsins hafi „reynst erfiðari og torsóttari en vænst var og er ekki enn séð hvað verður.“

Stefnt er að því að fjármálaráðherrar Íslands, Bretlands og Hollands muni hittast í Istanbúl eftir viku, að sögn Steingríms. Þá verður ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haldinn þar. Fundirnir hafa þó ekki enn verið tímasettir eða ákveðnir.

„Þá er maður helst að vona að við getum hist til þess að fara yfir málin og að einhver lausn verði komin á borðið,“ sagði Steingrímur. Hann mun einnig hitta fjármálaráðherra Norðurlandanna, Póllands, ef til vill fjármálaráðherra Rússlands og einhverja fleiri. Sem kunnugt er hefur verið rætt um að þessar þjóðir veiti Íslandi lán. 

Steingrímur var spurður hvort rétt væri að svar hafi borist frá Bretum í gær varðandi Icesave-málið. Hann sagði að ekki hafi borist endanlegt svar. „Menn hafa verið að þreifa á þessu og reyna að leita leiða til að finna lausn. Það hefur enn ekki borið árangur, því miður, ekki nægjanlega góðan. Þetta hefur verið erfitt.“

Steingrímur sagði að menn hafi verið sæmilega bjartsýnir í byrjun vikunnar eftir þær þreifingar sem þá höfðu farið fram. „En það hefur reynst torsótt að finna lausn á tilteknum þáttum.“

Steingrímur vildi ekki nota það orð að Icesave-málið sé í upplausn. „Meðan menn eru að reyna eru þeir að reyna. En það er ekkert launungarmál að ég hef verið þeirrar skoðunar og býsna lengi að það sé afar brýnt að koma þessari hindrun úr vegi þannig að hlutirnir kæmust af stað hjá okkur.

Það er mjög margt sem þessu tengist. Það er mjög tilfinnanlegt ef við förum ekki að fá botn í þetta mál svo áætlunin geti haldið áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert