Bankakerfi komið að fótum fram

„Hvað þýðir þetta fyrir mig?“ er spurning sem flestir Íslendingar spurðu sig, upphátt eða í hljóði, þegar tilkynnt var mánudaginn 29. september 2008 að ríkið hefði tekið yfir Glitni. Enginn var í vafa um að þessi dagur væri upphafið á afdrifaríkum breytingum en óvissan um framhaldið var algjör.

Hjá starfsmönnum bankans gafst þó enginn tími til að velta fyrir sér framhaldinu því þar voru símalínur rauðglóandi löngu fyrir opnunartíma og ekkert annað í boði en að svara áhyggjum viðskiptavina, jafnvel þótt engin svör væru á reiðum höndum.

Sara Margareta Fuxén, ráðgjafi hjá Glitni, segir frá því í greinaflokki Morgunblaðsins um hrunið, að í útibúum bankanna hafi verið veitt hálfgerð sálfræðiráðgjöf þessa daga fyrir ári. Starfsfólkið hafi setið með bunka af viðskiptabeiðnum á borðinu hjá sér í bið eftir að markaðir voru opnaðir aftur og í millitíðinni var ekki annað hægt að gera en að reyna að hughreysta viðskiptavini sem óttuðust um spariféð sitt.

Boltinn sem rúllaði af stað þennan örlagaríka dag hefur enn ekki staðar numið en það sem Jón Ásgeir Jóhannesson kallaði þá stærsta bankarán Íslandssögunnar telja nú flestir að hafi verið óumflýjanleg endalok bankakerfis sem komið var að fótum fram og hefði með einum eða öðrum hætti hrunið.

Ítarleg umfjöllun verður um fall Glitnis í Morgunblaðinu á morgun.

Saga bankahrunsins á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert