Guardian fjallar um hrunið á Íslandi

Breska dagblaðið Guardian segir að ummæli Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, í sjónvarpsþætti fyrir tæpu ári, um að Íslendingar geti ekki og ætli ekki greiða erlendar skuldir ábyrgðarlausra manna og leggja skuldaklafa á börn sín og barnabörn, hafi verið ein ástæða þess að Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands beitti hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans, stofnanda Icesave reikninganna, í Bretlandi.

Íslensk stjórnvöld hafi verið sett á sömu hillu og ráðamenn í Búrma, Norður-Kóreu sem og liðsmenn al-Kaída. Guardian fjallar um ársafmæli bankahrunsins á Íslandi, og stöðu IceSave málsins, í tveimur greinum í dag.

Að sögn blaðsins eru Íslendingar í miklum vanda. Þannig hafi landsframleiðsla þegar dregist saman um 9% í ár og gera megi ráð fyrir að hún dragist saman um 1-2% til viðbótar á næsta ári. Atvinnuleysi verði líklega 10 prósent í vetur og þeir sem haldið hafi vinnunni hafi lækkað í launum. Framundan séu skattahækkanir og niðurskurður. Bent er á að Icesave deilan sé í hnút.

Bresk og hollensk stjórnvöld gera kröfu á Íslendinga fyrir hönd innistæðueigenda Icesave-reikninganna í fyrrgreindum löndum, þeirra á meðal eru einstaklingar, sveitarfélög, góðgerðarfélög og stéttarfélög, að jafnvirði 700 milljarða króna.

Bent er á að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, og norrænar þjóðir, séu reiðubúnar að veita Íslendingum lán upp á 6,4 milljarða dollara, jafnvirði um 800 milljarða króna, að því tilskyldu að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar gagnvart Bretum og Hollendingum. Fram kemur í blaðinu að  niðurskurðarkröfur sjóðsins hafi enn ekki komið fram af fullum þunga, en að von sé á skattahækkunum samhliða gríðarlega miklum niðurskurði.

Fram kemur í Guardian að sífellt fleiri Íslendingar séu mótfallnir því að axla skuldabyrðar vegna Icesave reikninganna. Hlutfall þeirra sem mældist á móti reyndist 63% í könnun í júní sl. Blaðið hefur eftir Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn haldi hnífsegg á barka Íslendinga og sakar sjóðinn um að ganga aðeins erinda alþjóðlegra lánadrottna.

„Við höfum mikla samúð með þeim sem töpuðu fé á Icesave reikningum, en við getum ekki greitt meira en við getum,“ er haft eftir Ögmundi. Segir hann Íslendinga vilja standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi, þar á meðal Icesave. „En við erum hér að tala um upphæð sem nemur helmingnum af þjóðarframleiðslu landsins,“ segir Ögmundur og tekur fram að þurfi hann að velja milli þess að standa við skuldbindingar þjóðarinnar annars vegar og vörð um almannaheill hins vegar velji hann seinni kostinn.

„Sem stjórnmálamaður á vinstri vængnum sem þarf að velja milli þess að gæta réttinda auðmanna eða þeirra sem ekkert eiga þá hef ég tilhneigingu til þess að standa með seinna hópnum. Almenningur skammast sín fyrir hvernig mál þróuðust, en eigum við að skera niður á krabbameinsdeild í Reykjavík til þess að greiða lánadrottnum?“ spyr Ögmundur.

Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að það komi alltaf að skuldadögum. Segist hann áætla að 15-20% heimila landsins séu í alvarlegum greiðsluvanda vegna þess að lánin hafi hækkað og að þessi hópur þurfi að fá fjárhagsaðstoð.


Bæði Wall Street Journal og Bloomberg vitna í dag í nýja skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þar sem hann metur eigin frammistöðu í fjármálakreppunni. Þar segir að þrjár þjóðir glími við mun meiri erfiðleika en aðrar í Evrópu og hafi þannig nokkra sérstöðu, þ.e. Lettar, Úkraínumenn og Íslendingar. Lettar vegna tengingar gjaldmiðils þeirra við evruna, sem útiloki gengisfellingu; Úkraínumenn vegna glundroða og óvissu í stjórnmálum og Íslendingar vegna gríðarlegra erlendra skulda.


Davíð Oddsson í Kastljósinu.
Davíð Oddsson í Kastljósinu.
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/ÞÖK
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert