Öryggisvörður uppvís að hótunum

Maður, sem starfaði sem öryggisvörður hjá Securitas, varð uppvís að því að hafa hótað fjölskyldu í húsi, sem hann tók þátt í að gæta í Reykjavík. Þetta kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

Í Kastljósi kom fram, að SMS skilaboð, sem send voru í síma fjölskylduföðurins, voru rakin til síma, sem kona sagðist hafa týnt í verslun 10-11 í Kópavogi og einnig til tölvu, sem er í versluninni. Umræddur öryggisvörður starfaði einnig í versluninni við öryggisgæslu.

Þá kom fram, að maðurinn, sem er Pólverji en hefur búið hér á landi í nokkur ár, er eftirlýstur af lögreglu í heimalandi sínu fyrir stórfelld og ítrekuð fjársvik.

Forsvarsmaður Securitas vildi ekki tjá sig um málið við Sjónvarpið þar sem lögregla væri með það til rannsóknar. Hann sagði, að maðurinn hefði verið með hreint sakarvottorð þegar hann var ráðinn í vinnu og ekkert benti til þess að hann hefði komist í kast við lögin. Manninum var vikið úr starfi þegar málið kom upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert