Afar fáir ætla að kaupa íbúð

Aðeins 2,8% Íslendinga telja það mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir munu kaupa hús eða íbúða á næstu 6 mánuðum. Þetta kom fram í spurningavagni Capacent Gallup í tengslum við mælingu á væntingavísitölu, sem fyrirtækið reiknar út mánaðarlega.

Að sögn Greiningar Íslandsbanka hefur þetta hlutfall ekki áður mælst jafn lágt í núverandi kreppu. Í september í fyrra var þetta hlutfall 5,5% og í september 2007 eða nálægt hápunktinum á húsnæðismarkaðinum í síðustu uppsveiflu sögðust 8,3% telja mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu kaupa hús eða íbúða á næstu sex mánuðum. 

Íslandsbanki segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart en veltan á íbúðamarkaðinum hafi verið afar lítil undanfarið og fjöldi kaupsamninga í algeru lágmarki. Niðurstöður spurningakönnunarinnar beri það með sér að framundan er magur vetur á þessum markaði.

Fáir ætla að kaupa nýjan bíl

Þá er ekki útlit fyrr að bifreiðasalan glæðist á næstunni en um 7,5% Íslendinga telja það mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir muni kaupa bíl á næstu 6 mánuðum. Er þetta hlutfall nokkuð lægra hlutfall en í júní þegar þessi könnun var síðast gerð, en þá töldu 10,8% mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu kaupa bíl á næstu 6 mánuðum. Árið 2007 töldu 19,3% hins vegar mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu kaupa bíl á næstu 6 mánuðum.

Íslandsbanki segir, að þetta hlutfall nú sé með því lægsta sem mælst hafi í þessari kreppu en bifreiðasala og þá sérstaklega sala á nýjum bifreiðum hafi verið í mikilli lægð undanfarið. Í ágúst voru nýskráðir 189 nýjar bifreiðar samanborið við 2141 í sama mánuði 2007. Samdrátturinn á þessu tímabili er 91%.

Væntingavísitalan hækkar

Væntingavísitala Gallup hækkaði lítilsháttar á milli ágúst og september. Er vísitalan nú í 33,5 stigum og hefur ekki verið hærri síðan í apríl síðastliðnum. Landsmenn eru þó enn afar svartsýnnir en vístalan er þannig að þegar hún er undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið.

Tæplega 89% telja efnahagsástandið slæmt og telja 53% að það verði verra eftir 6 mánuði en 18% telja að það verði betra. Þá telja 49% atvinnumöguleika litla en 8% telja að þeir séu miklir. Einnig telja 31% að atvinnumöguleikar verði minni eftir 6 mánuði en 14% telja að þeir verði meiri.

Þá telja 49% að heildartekjur þeirra verði lægri eftir 6 mánuði en  7,4% telja að þær verði hærri. Greining Íslandsbanka segir, að allt bendi þetta til þess að landinn telji að framundan sé afar erfiður vetur í efnahags- og atvinnumálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert