Líklega niðurfelling hjá fleiri bönkum

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. Mbl.is/ Kristinn

Líklegt er að Landsbankinn og Kaupþing fylgi í fótspor Íslandsbanka, með því að bjóða upp á skuldbreytingu lána með lækkun á höfuðstóli. Þetta sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um skuldavanda heimilanna, á Grandhótel í dag.

„Ástæðan fyrir því að Íslandsbanki býður upp á þetta er  að það er eitt vandamál, sem er það að biðreikningurinn sem felst í þessari aðgerð [stjórnvalda innsk. blm.] sem nú á að kynna, hann skapar óvissu um hversu mikils virði lánasöfn bankanna eru. Það er gallinn á þessari aðferð, en á öllum aðferðum eru gallar,“ sagði Tryggvi Þór.

Hann vitnaði í Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um að ástæðan fyrir þessum aðgerðum bankans væri sú að útrýma þyrfti óvissu um verðmæti lánasafns bankans, til  að gera bankann betri. ,,Þetta er vandamál sem mun koma upp í framtíðinni. Lánadrottnar munu spyrja:  Hvers virði er þetta eignasafn? Það er því ekki ólíklegt að hinir bankarnir tveir muni fylgja í kjölfarið og bjóða upp á einhvers konar skuldaniðurfellingu,“ sagði Tryggvi Þór.

Þingmaðurinn lýsti sig ánægðan með og fylgjandi þeim aðgerðum sem stjórnvöld eru að kynna, vegna skuldavanda heimilanna. Sagði hann að þær þyrftu að standast ákveðin skilyrði. Til dæmis að vera almennar til að koma til móts við þann forsendubrest sem varð síðasta haust, leiða ekki til stórfelldra skattahækkana, vera ekki vinnuletjandi eins og tekjutengdar aðgerðir gætu orðið, tryggi greiðsluvilja skuldaranna og viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur eignist sitt eigið húsnæði.

Sagði hann að aðgerðir stjórnvalda, ef þær yrðu eins og greint hefur verið frá í fréttum, gætu orðið til þess að skuldavandi heimilanna leystist að stórum hluta. Hann lagði hins vegar áherslu á að aðgerðirnar væru aðeins gólfið sem sett væri á aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, til viðbótar gætu svo komið frekari aðgerðir lánastofnana.

Tryggvi Þór talaði einnig um að ekki mætti kalla aðgerðir stjórnvalda tekjutengingu, þar sem þær væru almennar en ekki einstaklingsbundnar, þar sem miða ætti við launavísitölu, en ekki tekjur hvers og eins. ,,Þar gæti komið upp smá vandamál, þegar kaupmáttur eykst mjög snöggt þá eykst greiðslubyrðin mjög snöggt. En það er kostur við það út frá hagstjórnarlegum markmiðum,“sagði hann. Það ynni með peningastefnunni, þar sem peningar væru sjálfkrafa dregnir út úr umferð í hagkerfinu, sem leiddi til þess að vextir þyrftu ekki að vera jafnháir, eða  hækka jafnmikið, og ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert