Stóraukið samstarf um forvarnir

mbl.is/Guðmundur Rúnar

Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og Íþróttabandalag Reykjavíkur munu í vetur sameinast um aukið samstarf þessara aðila í sérstökum forvarnarverkefnum tengdum börnum og ungmennum. Samningur þar að lútandi verður undirritaður í dag.

Sérstök áhersla verður lögð á að vinna með íþróttafélögum, foreldrafélögum og stofnunum Reykjavíkurborgar, þar með talið skólum, frístundamiðstöðvum og þjónustumiðstöðvum, til að koma í veg fyrir brottfall unglinga úr íþróttum, að því er fram kemur í frétt frá borginni.

 Skipaður verði sérstakur starfshópur þessara aðila til að undirbúa og vinna að verkefni þessu.

„Víðtækt forvarnarstarf er unnið á vegum Reykjavíkurborgar sem og á vegum frjálsra félagssamtaka í borginni. Reykjavíkurborg starfrækir sex frístundamiðstöðvar og 23 félagsmiðstöðvar, sem sérhæfa sig í starfsemi fyrir unglinga. Fjölmörg íþróttafélög og æskulýðssamtök eru starfandi í borginni sem leggja megináherslu á metnaðarfullt barna- og unglingastarf. Þá fer fram öflugt foreldrastarf í flestum af 45 grunnskólum borgarinnar. Allir þessir aðilar gegna því með einum eða öðrum hætti þýðingarmiklu forvarnarstarfi og á vel við að á það sé minnt á forvarnadaginn,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Með umræddu verkefni er m.a. stefnt að því að auka upplýsingmiðlun til að stuðla að því að sem flestir unglingar eigi þess kost að taka þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi. Sérstök áhersla verður lögð á að sinna þeim unglingum, sem hætta þátttöku í íþróttum og benda þeim á aðra uppbyggilega kosti til að verja frítíma sínum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að börn og unglingar, sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, eru ólíklegri en aðrir til að leiðast út í fíkniefnaneyslu og aðra óæskilega hegðun. Foreldrar, sem þekkja aðra foreldra í hverfinu og vini barna sinna ásamt því að vita hvað börnin aðhafast í frítímanum, minnka um leið hættuna á því að þau ánetjist fíkniefnum.

„Þátttaka foreldra eflir forvarnaáhrif skóla- og íþróttastarfs til mikilla muna. Líklegt er að enn sé hægt að efla forvarnir með því að stuðla að auknu samstarfi allra þeirra, sem taka þátt í slíku unglingastarfi, t.d. foreldra, kennara og þjálfara. Með útvíkkun á slíku samstarfi verður hægt að þétta enn frekar það net forvarna sem þegar er til staðar og hefur skilað miklum árangri,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert