Byko lokar á Akranesi

mbl.is/Kristinn

Verslun og timbursölu Byko verður lokað í októberlok og þá hefur öllum starfsmönnum verið sagt upp. Alls er um sjö fastráðna starfsmenn að ræða og þrjá í hlutastarfi. „Við erum að reyna að hagræða í rekstri hjá okkur eins og við getum og þurfum,“ segir Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri Byko.

Hann segir í samtali við mbl.is að fundað hafi verið með starfsfólkinu í gær. Þar hafi breytingarnar og uppsagnirnar verið kynntar. „Við létum starfsfólkið líka vita að við munum gera sem við getum til að tryggja þeim vinnu annarsstaðar hjá fyrirtækinu, sé þess kostur,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir Sigurður að fyrirtækið hafi þurft að grípa til mikilla aðhaldsaðgerða undanfarna mánuði. Fleiri starfsmönnum hafi verið sagt upp en Sigurður vill ekki gefa upp heildarfjöldann.

„Við erum að meta stöðuna. En það eru engar aðrar ákvarðanir sem liggja fyrir á einn eða neinn hátt,“ segir hann.

„Samdráttur er mikill í byggingariðnaði núna á Íslandi. Stjórnvöld eru ekki að gefa neina markvissa stefnu í málum varðandi framkvæmdir í byggingariðnaði. Og því miður er verulegur samdráttur uppi á Skaga,“ segir Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert