Fréttaskýring: Óvissa um persónukjör litar prófkjör

Kosningar til sveitarstjórna fara fram 29. maí á næsta ári og því er tími prófkjara að ganga í garð. Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi riðu á vaðið og hafa auglýst prófkjör sem fram á að fara 7. nóvember nk. Aðrir stjórnmálaflokkar eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Búast má við tilkynningum um fleiri prófkjör nú í vetrarbyrjun og eftir áramótin mun þeim fjölga mikið ef að líkum lætur.

Sveitarstjórnarkosningar hafa þá sérstöðu að oft eru boðnir fram listar óháðir stóru flokkunum og það á eftir að koma í ljós þegar nær dregur kosningum hverjir bjóða fram í hverju sveitarfélagi. Það kann svo að hafa áhrif á kosningarnar næsta vor hve mjög sveitarfélögum hefur fækkað frá því síðast var kosið.

Frumvarp um persónukjör til sveitarstjórnarkosninga er nú til meðferðar hjá Alþingi. Verði það samþykkt mun fyrirkomulag kosninganna gjörbreytast. Í stað þess að kjósa fyrirfram raðaða lista verða kjósendurnir að raða fólki á listana í kjörklefanum. Óvissa um afdrif frumvarpsins mun væntanlega lita prófkjörsbaráttuna sem framundan er. Verða leiðtogar listanna valdir í prófkjörum eða ekki fyrr en í kjörklefanum næsta vor?

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, segir að það sé undir hverju svæðisfélagi fyrir sig komið hvernig verður raðað á lista. „Ég reikna þó frekar með því að stærstu svæðisfélögin nýti forval til að raða upp og hefur töluverð vinna farið í það undanfarið að samræma forvalsreglur til að félögin geti haft þau til hliðsjónar, sú vinna er á lokastigi,“ segir Drífa. Ef persónukjör verður ofan á reiknar Drífa með því að niðurstaða í forvali verði notuð til að velja fólk á listana, án þess þó að vilja svara fyrir svæðisfélögin.

Samkvæmt lögum Framsóknarflokksins eru framboð til sveitarstjórnar í höndum aðildarfélaga í viðkomandi sveitarfélagi. Aðildarfélög ákveða hvaða aðferð skal viðhafa við val frambjóðenda, sjá um framkvæmd valsins og ganga frá framboðslista. „Þar til annað kemur í ljós er unnið eftir því lagaumhverfi sem nú gildir varðandi sveitarstjórnarkosningar,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri flokksins.

Eins og hjá öðrum flokkum eru það fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í hverju sveitarfélagi sem ákveður uppstillingu á lista. Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri segir að aðeins fulltrúaráðið á Seltjarnarnesi hafi tekið ákvörðun um prófkjör.

Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar, segir að undirbúningur sé hafinn hvað varðar málefnastarfið og sveitarstjónarfulltrúar flokksins komi fljótlega saman til stefnuþings.

Fulltrúaráð flokksins ákveða framkvæmd og fyrirkomulag niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar við kosningar til sveitarstjórna.

Sigrún segir að Samfylkingin geri ráð fyrir að það náist góð samstaða innan þings sem utan um framvindu frumvarps um persónukjör og það verði viðhaft í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert