Telur ríkisstjórnina lifa af

Steingrímur J. Sigfússon vildi lítið ræða við fréttamenn fyrir þingflokksfundinn.
Steingrímur J. Sigfússon vildi lítið ræða við fréttamenn fyrir þingflokksfundinn. mbl.is/Jón Pétur

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, segir skelfilegt fyrir ríkisstjórnina og samfélagið að Ögmundur Jónasson hafi ákveðið að yfirgefa ríkisstjórnina. Þar fari ötulasti baráttumaður fyrir íslenskt velferðarkerfi. Hún telur ákvörðunina tekna til að bjarga ríkisstjórninni sem muni lifa Icesave-málið af.

„Mér sýnist að hann hafi sagt af sér embætti til þess eins að bjarga ríkisstjórninni. Það er búið að stilla málum þannig upp, að annað hvort séu allir einróma í skoðun sinni á Icesave eða ríkisstjórnin verði sprengt í loft upp.“

Spurð hvort ákvörðun Ögmundar muni eitthvað breyta afstöðu hans eða annarra í Vinstri grænum til Icesave-málsins segir Guðfríður það ekki liggja fyrir hver afstaða Ögmundar er. „Við erum öll tilbúin að skoða málið, enda er það á öðrum stað en í byrjun sumars. Ég er tilbúin að skoða málið, en á þeirri forsendu að það fái þingræðislega meðferð. Og mér sýnist það hafa verið það sem Ögmundur krafðist.“

Guðfríður segir lykilatriði að Ögmundur hafi stigið niður til að ríkisstjórnin springi ekki enda sé mjög mikilvægt að hún starfi áfram. „Ég tel að ríkisstjórnin lifi þetta af. Ögmundur er alla vega með þessu að gera henni betur kleift að lifa af. Enda hafði það komið fram hjá Jóhönnu [Sigurðardóttur forsætisráðherra] í gær og undanfarna daga, að ríkisstjórnin myndi ekki lifa af ef sama skoðun sé ekki ríkjandi hjá öllum sem sitja við ríkisstjórnarborðið.“

Atli Gíslason, þingmaður VG, segir afsögn Ögmundar hafi komið verulega á óvart. Þingflokkurinn hafi ekki haft hugmynd um hana áður og ákvörðunin alfarið verið hans.

Fundur þingflokks VG hófst kl. 14.15 og er gert ráð fyrir að hann standi framundir klukkan 18 þegar ríkisstjórnarfundur hefur verið boðaður. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, vildi ekki tjá sig um stöðu mála við blaðamenn þegar hann kom á þingflokksfundinn. 

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, kemur á þingflokksfund VG í dag.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, kemur á þingflokksfund VG í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert