Skilmálar myntkörfulána voru ólögmætir

mbl.is/Ómar

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þá niðurstöðu Neytendastofu að skilmálar á myntkörfulánum Kaupþings hafi verið ólögmætir. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV. Neytendasamtökin telja að lántakendur eigi rétt á leiðréttingu og hafa krafist svara frá Kaupþingi um hvað bankinn muni aðhafast.

Brynhildur Pétursdóttir, fulltrúi hjá Neytendasamtökunum, sagði í fréttum RÚV að Kaupþing hafi í lánaskilmálum tilgreint millibankavexti en ofan á þá hafi verið lagt álag og það saman kallað kjörvextir. Fólk hafi hvorki vitað að álagið gæti hækkað né við hvaða aðstæður.

Neytendasamtökin fengu nokkur mál inn á borð til sín í ágúst í fyrra vegna myntkörfulána Kaupþings og eftir að hafa skoðað málin tóku samtökin undir athugasemdirnar og sendu þau til Neytendastofu, sem hefur eftirlit með lögum um neytendalán. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði brotið gegn lögum, Kaupþing áfrýjaði niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur staðfest niðurstöðu Neytendastofu.

Brynhildur sagði á RÚV að Neytendasamtökin hefðu í morgun sent Kaupþingi bréf þar sem svara er krafist um hvernig bankinn hyggst leiðrétta orðinn hlut lántakenda. Hún segir að lántakendur eigi rétt á að ofteknir vextir verði endurgreiddir og gerir ráð ráð fyrir að bankinn leiðrétti þetta.

Úrskurður áfrýjundarnefndar neytendamála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert