Þurfa að sýna ábyrgð í kosningum

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ásdís Ásgeirsdóttir

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvetur sveitarstjórnarmenn til að sýna ábyrgð í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í vor. „Við megum ekki láta kosningar næsta vor skemma fyrir árangri og nauðsynlegri ákvarðanatöku vetrarins."

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst í Reykjavík í dag. Mörg sveitarfélög standa frammi fyrir miklum fjárhagsvanda og er hann til umræðu á ráðstefnunni, en hana sækja sveitarstjórnarmenn af öllu landinu.

„Aukin skattheimta ríkisins mun skerða mjög svigrúm sveitarfélaga til tekjuöflunar með sköttum og þjónustugjöldum," sagði Halldór í setningarræðu sinni.

„Hagræðingaraðgerðir bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjum og aukið atvinnuleysi hafa leitt til lækkunar meðaltekna. Þegar við bætist aukin greiðslubyrði af lánum ásamt hækkun velflestra nauðsynjavara vegna verðbólgu og óhagstæðrar gengisþróunar er ljóst að bæði ráðstöfunartekjur og kaupmáttur almennings hafa skerst verulega. Af þeirri ástæðu er ljóst að svigrúm sveitarfélaga til aukinnar skattheimtu og hækkunar þjónustugjalda er mjög takmarkað. Við getum ekki útilokað að sveitarfélögin þurfi á skattahækkunum að halda og hækkun þjónustugjalda er víðast óhjákvæmileg."

Halldór sagði ljóst að að niðurstaða ársreikninga 2009 yrði ekki í samræmi við fjárhagsáætlanir. "Það ætti ekki að koma á óvart því við töluðum um að sjaldan eða aldrei hefðu sveitarfélögin unnið þessar áætlanir við jafnmikið óvissuástand. Vextir og verðbólga eru hærri en flest sveitarfélög reiknuðu með og krónan er mun veikari. Og það hefur orðið 7% raunsamdráttur í útsvarstekjum, þ.e. hækkun um 2,4% í 10-11% verðbólgu. Þessa gætir mest á höfuðborgarsvæðinu en er vitanlega misjafnt milli sveitarfélaga. Atvinnuleysi er misjafnt líka en hefur mjög slæm áhrif á rekstur sveitarfélaganna þar sem þess gætir mest."

Halldór sagði að útlit fyrir að krónan yrði veik áfram þannig að gengishagnaður sem sveitarfélögin vonuðust eftir í ár myndi líklega láta eitthvað á sér standa áfram.

„Ábyrgð okkar sveitarstjórnarfólksins er algjör á því sem snýr að rekstri sveitarfélaganna, þeirri ábyrgð vísum við ekki annað eða hlaupum undan henni. Við megum ekki láta kosningar næsta vor skemma fyrir árangri og nauðsynlegri ákvarðanatöku vetrarins. Meiri- og minnihlutakarp mun eflaust aukast á kosningavetri en í raun eigum við hvorki tíma né orku aflögu í slíkt karp. Við þurfum að nota kraftana í annað við þessar aðstæður. Íbúarnir krefjast þess af okkur að við sýnum ábyrgð og aðhald í rekstri þó það sé erfitt.," sagði Halldór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert