Skattkerfinu breytt óhikað

Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína.
Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni, að ríkisstjórnin muni óhikað breyta skattkerfinu til þess að auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu.

„Þar er um mikla stefnubreytingu að ræða frá stjórnartímabili Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá leyfðist ríkustu fjölskyldum landsins að hrifsa til sín sístækkandi hlut í ráðstöfunartekjum landsmanna. Á árunum 1993 til 2007 fimmfölduðu ríkustu fjölskyldur landsins hlut sinn í ráðstöfunartekjum, 1% ríkustu fjölskyldna fóru úr 4% í 20% af heildarráðstöfunartekjum landsmanna. Þetta var óheillastefna fyrir Íslendinga, stefna markvissrar misskiptingar sem leiddi til ófarnaðar. Þessari stefnu hefur nú verið kastað fyrir róða. Þeir sem gagnrýna skattastefnu ríkisstjórnarinnar verða að segja hvort þeir vilji skera meira niður og þá hvar eða hvort þeir vilji auka skuldir ríkissjóðs," sagði Jóhanna og bætti við, að þær sársaukafullu og harkalegu aðgerðir, sem fjárlagafrumvarpið boðaði, væru óhjákvæmilegar.

Hún sagði að draga verði mjög hratt úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins en fjárhagsleg framtíð komandi kynslóða væri í húfi. „Glíman við fjárlagahallann á næstu árum snýst um hvort við Íslendingar höldum okkar efnahagslega sjálfstæði eða ekki. Ætlum við tapa þeirri glímu? Nei, segi ég. Ekki á minni vakt," sagði Jóhanna.

1700 milljarða skuldir  

Jóhanna sagði, að þjóðin spyrji hverjar væru þessar skuldir ríkisins. „Ég skal svara því skýrt: Skuldir ríkisins munu vaxa úr rúmum 300 milljörðum króna árið 2007 í rúma 1700 milljarða árið 2010 eða um nærri eina landsframleiðslu - 1400 milljarða króna. Þar er ekki ein króna vegna Icesave-málsins. Um 350 milljarðar eru vegna halla ríkissjóðs, um 350 milljarðar vegna lána vinaþjóða til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, um 300 milljarðar vegna endurfjármögnunar banka og fjármálafyrirtækja, um 150 milljarðar vegna gengisþróunar á eldri lánum og um 300 milljarðar vegna Seðlabanka Íslands, til að forða gjaldþroti hans. Skuld ríkisins vegna afskrifaðra lána Seðlabanka Íslands jafngildir þreföldum niðurskurði fjárlagahallans á milli áranna 2009 og 2010. Vegna þessara vaxandi skulda er vaxtakostnaður ríkisins orðinn næst stærsti liður fjárlaga á eftir útgjöldum til félags- og tryggingamála, um 100 milljarðar króna. Þessi vaxtabyrði ríkisins mun að lokum verða stærsti útgjaldaliður fjárlaga ef ekkert er gert," sagði Jóhanna.

Leiðir opnast út úr vandanum

Forsætisrsáðherra sagði, að stefna ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að létta greiðslubyrði og greiða úr skuldavanda einstaklinga og heimila liggi nú fyrir. Þar fari saman almenn leiðrétting og ný sértæk úrræði þar sem allt kapp sé lagt á að greiða úr vanda sem flestra með sanngirni, jafnræði og hófsemi að markmiði.

„Með þessu mun fjöldi heimila og einstaklinga ná tökum á fjármálum sínum. Þeir sem annars hefðu átt alvarleg vanskil yfir höfði sér ná vopnum sínum og fólk hefur meira fé til ráðstöfunar. Hjá þeim sem virtust allar bjargir bannaðar opnast leiðir til að greiða úr vandanum og fólk getur litið framtíðina bjartari augum," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert