Sligast undir vaxtabyrðum erlendra skulda

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að þjóðin muni sligast undir vaxtabyrðum erlendra skulda haldi stjórnvöld áfram á þeirri braut sem hún sé á. Þetta kom fram í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.

„Endurgreiðsla á erlendum lánum mun taka stóran bita af öllum hagvexti og þjóðarframleiðslu. Eftir standa tvær leiðir hæstvirtrar ríkisstjórnar, sem okkur er boðið upp á. Niðurskurður á velferðarkerfinu og skattpíning. Ekki hafa komið fram neinar ásættanlegar leiðir til að leiðrétta það óréttlæti sem almenningur hefur orðið fyrir,“ segir Birgitta.

Hún segir að nú verði að taka ákvarðanir sem feli í sér von, réttlæti og endurveki heilbrigða tilfinningu stolts yfir því að búa á Íslandi. Leita eigi allra leiða til að finna sameiginlegar lausnir.

Hún segir að Bretar hafi lýst yfir stríði þegar þeir stimpluðu Íslendinga sem hryðjuverkamenn. Bretar hafi beitt Ísland efnahagslegum hryðjuverkum með því að misnota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðildarumleitanir Íslands að ESB, til að þvinga fram niðurstöðu í Icesave. 

„Það er rangt að leggja á herðar almennings í landinu skuldbindingar sem hann efndi aldrei til.“

Þá segir að hún að það verði að hafna skilmálum Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni, í þágu þjóðarafkomu og þjóðaröryggis.

Birgitta segir að Íslendingar eigi að losa sig við ítök AGS í landsmálum með öllum tiltækum ráðum. Þá sé óráðlegt að halda áfram umsóknarferlinu að ESB, þar sem sambandið hafi verið fjandsamlegt Íslandi í kringum Icesave-viðræðurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert