Hefur trú á að stjórnin lifi

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, kveðst trúa því að núverandi ríkisstjórn haldi áfram. Hann segir stuðningsmenn og velunnara flokksins ekki vilja að stjórnin falli, það sé það síðasta sem landið þurfi á að halda.

Steingrímur er nú staddur á ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Tyrklandi. Aðspurður um mat á stöðu pólitíkurinnar hér heima sagði Steingrímur erfitt að tjá sig úr fjarlægð um hana. Hann kvaðst þó hafa heyrt vel látið af frammistöðu fulltrúa VG í umræðum um stefnuræðuna í gærkvöldi.

„Ég hef skynjað það mjög sterkt af þeim viðbrögðum sem hafa náð til mín að enginn af þeim stuðningsmönnum okkar og velvildarmönnum, sem hafa náð sambandi við mig, hafa haft nema eitt að segja: Bara í guðs bænum ekki láta þessa ríkisstjórn falla! Það er það síðasta sem landið þarf á að halda. Ég er rólegur með það og trúi því að það verði niðurstaðan - að hún haldi áfram.“

Steingrímur kvaðst vera sammála Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að önnur starfhæf og sterk ríkisstjórn sé ekki í sjónmáli. „Enda engin ástæða til meðan meirihlutastjórn situr með nýlegt umboð,“ sagði Steingrímur.

Hvað varðar eigin flokk kvaðst Steingrímur ganga út frá því sem varð niðurstaðan þegar endurskipuleggja þurfti þeirra lið í ríkisstjórn og fundað var um framhaldið. „Þá tók hver einn og einasti skýrt fram að þeir vildu að stjórnarsamstarfið héldi áfram og væru stuðningsmenn þess,“ sagði Steingrímur.

„Það var sömuleiðis veitt fullt umboð til þess að halda áfram að reyna að leiða þetta Icesave-mál til lykta. Koma þá með niðurstöðuna af því til kynningar. Menn voru í grófum dráttum sammála um hvað út af stæði og á hverju þyrftu að nást fram lagfæringar, nákvæmlega því sem þó verið er að vinna.“

Steingrímur sagði að menn hafi einnig rætt um að þétta raðirnar og að tala af tillitssemi um skoðanir hvers og eins út á við. „Ég vona að það verði ekki mikil frávik frá því,“ sagði Steingrímur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert