Íslendingum þakkað í Kenía

Konur úr Pókot sungu og dönsuðu við vígslu skólans.
Konur úr Pókot sungu og dönsuðu við vígslu skólans. SÍK

Nýr framhaldsskólinn, sem var byggður að miklu leyti fyrir íslensk framlög í Propoi í Kenía, var vígður nýlega. Fjöldi gesta var við athöfnina, m.a. menntamálaráðherra Kenýa og yfirvöld menntamála í Pókot héraði. Hann þakkaði sérstaklega fyrir framlag Íslendinga.

Skólinn er staðsettur í Chepareria þar sem einnig er kristniboðsstöð. Skúli Svavarsson kristniboði var fulltrúi Sambands íslenskra kristniboðsfélaga (SÍK) við vígsluna og segir frá henni á heimasíðu sambandsins. Þróunarsamvinnustofnun Íslands greiddi 60% af byggingarkostnaðinum, SÍK greiddi 25% og heimamenn 15%. 

„Ég giska á að það hafi verið milli tvö og þrjú þúsund manns á staðnum. Það voru nemendur frá mörgum skólum í nágrenninu, skólastjórar og allir æðstu embættismenn menntamála í Pókot og sjálfur menntamálaráðherrann var aðalgestur ásamt fylgdarliði,“ skrifar Skúli.

„Menntamálaráðherra klippti á snúru í nýja matsalnum og eldhúsinu og biskupinn William Lopeta bað og vígði byggingarnar. Að minnsta kosti 10 kórar sungu og fjöldinn allur af yfirmönnum skólastarfsins fluttu ræður. Menntamálaráðherrann flutti aðalræðuna og fór mjög fögrum orðum um störf kirkjunnar okkar og stuðning við menntamálin og hann þakkaði líka sérstaklega Íslendingum fyrir alla þeirra aðstoð. Það gerðu líka flestir yfirmanna skólamála hér í Pókot.“

Menntamálaráðherrann ræddi við Skúla og sagðist ekki geta fullþakkað íslenska kristniboðinu og Íslendingum fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir Pókot. „Hann gaf svo 500 þúsund shillinga (um 850 þúsund krónur) til byggingar tilraunastofu fyrir skólann. Sjálfur lagði hann hornstein að byggingunni og plantaði tré, en það er orðin fastur liður í hátíðarhöldum hér. Allir gestirnir fengu svo mat.

Við sem vorum heiðursgestir vorum öll skreytt með jólatrésskreytingum eins og venja er. Þetta var stórkostlegur dagur og vel heppnaður á allan hátt og viðurkenning fyrir starf okkar og kirkjunnar. Það eru nú 176 nemendur í stúlknaskólanum og báðar heimavistirnar því troðfullar.

Það eru tveir fyrstu bekkir með á milli 40 og 50 nemendum hvor. Svo er einn annar bekkur og einn þriðji bekkur. Heimavistirnar, matsalurinn og skólastofurnar sem við höfum fjármagnað að mestu leyti eru fullkláraðar. Verið er að byggja tvær kennslustofur í viðbót, búið er að múra upp veggina. Búið er að grafa fyrir tilraunastofunni og hafinn undirbúningur að byggingu nýrrar heimavistar,“ skrifar Skúli.

Heimasíða SÍK

Menntamálaráðherra Kenía var við vígslu skólans og klippti á borða.
Menntamálaráðherra Kenía var við vígslu skólans og klippti á borða. SÍK
Í stúlknaskólanum eru 176 nemendur og heimavistir troðfullar.
Í stúlknaskólanum eru 176 nemendur og heimavistir troðfullar. SÍK
Skólinn var byggður að miklu leyti fyrir íslenskt fé. Myndin …
Skólinn var byggður að miklu leyti fyrir íslenskt fé. Myndin var tekin í fyrra þegar verið var að byggja skólahúsið. SÍK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert