Jóhanna gagnrýnir Brown

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gagnrýnir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, harðlega fyrir setningu hryðjuverkalaganna fyrir ári síðan í viðtali við blaðið Financial Times í dag. Hún segir í viðtalinu að sú seinkun sem hefur orðið á greiðslum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sé óásættanleg.

Kemur fram í FT að ákvörðun Breta að setja hryðjuverkalögin til þess að fyrsta eignir Íslendinga hafi aukið kreppuna á Íslandi og eyðilegt sambandið á milli tveggja ríkja innan Atlantshafsbandalagsins. 

„Það að stimpla vin og bandamann til langs tíma sem hryðjuverkamann er gjörningur sem við munum seint gleyma," segir Jóhanna við FT. „Það særir."

Fjallað er um deilur Íslendinga við Breta og Hollendinga út af Icesave reikningum Landsbankans í greininni en um innistæður fyrir um fjóra milljarða evra hafi horfið. 

Segir Jóhanna að það sé ósanngjarnt að bæði AGS og norrænu ríkin hafi gert það að skilyrði að leysa þurfi Icesave deiluna áður en Íslendingar fái lán. Hins vegar vonist hún til þess að endurskoðun lánsins geti hafist hjá AGS á næstu vikum.

Segir hún að bresk og hollensk yfirvöld geti ekki þvegið hendur sínar af ábyrgð eigin fjármálaeftirlita vegna íslensku bankanna sem störfuðu í löndunum tveimur.  

Hún segir að þar stangist á gerðir Breta og meginreglu Brown sjálfs. Með því að láta Íslendinga greiða fyrir mistök íslensks einkabanka. „Breski forsætisráðherrann hefur sagt að almenningur eigi ekki að líða fyrir rangar gjörðir bankanna en að  bankarnir eigi að umbuna almenningi. Greinilega telur hann ekki íslenskan almenning þar með," segir Jóhanna.

Hún segir að Íslendingar beri sjálfir einhverja ábyrgð hruninu en helsta skýringin sé óhaminn kapitalismi og græðgi. Auk mikilmennskubrjálæðis og krosseignatengsla fárra leikmanna.

Jóhanna segir í viðtalinu að lausafjárkreppan hafi orðið til þess að íslensku bankarnir hrundu en stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir á Íslandi hefðu átt að krefjast þess að bankarnir drægju saman seglin.

Viðtalið við Jóhönnu í heild
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert