Norræn umhverfisverðlaun til Svíþjóðar

Sænsku útivistarsamtökin Friluftsfrämjandets Riksorganisation hljóta náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2009 fyrir verkefnið „Í alls kyns veðri“.
 
Sænsku útivistarsamtökin voru sett á laggirnar á 19. öld. Frá árinu 1985 hafa þau unnið að því að hvetja börn til að stunda hreyfingu í náttúrunni. Í samtökunum eru nú um 100.000 börn og fullorðnir.
 
Verkefnið „Í alls kyns veðri“ er skipulag fyrir leikskóla þar sem börn eru hvött til dáða með aðstoð náttúrunnar. Börnin æfa grófhreyfingar með jafnvægisæfingum og með því að skríða, hoppa og klifra úti við. Þau þróa einnig lyktarskyn og hlustun á leikvelli náttúrunnar. Allt stuðlar þetta að því að börnin öðlast skilning á náttúrunni, sem fylgir þeim lífíð á enda. Börnin kynnast samspili dýra, manna og náttúrunnar á eðlilegan hátt, sem veldur því að þau verða tillitsamari gagnvart náttúru og mönnum, að því er segir í tilkynningu.
 
Dómnefnd náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs tók ákvörðun um verðlaunahafann á fundi sínum í Reykjanesbæ í dag. Um er að ræða peningaverðlaun að upphæð 350 þúsund danskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert