Ár frá beitingu hryðjuverkalaga

Ár er liðið síðan bankakerfið hrundi og bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum á íslensku þjóðina. Á erlendum fréttasíðum má sjá atburðum undanfarins árs gerð skil.

Á fréttavef BBC er t.d. sagt frá því að nú séu Íslendingar að íhuga aðild að Evrópusambandinu og sé deilt um hagkvæmni aðildarinnar innan ríkisstjórnarinnar. Á sama vef má einnig skoða myndband við fréttina.

Síða The Guardian gerði afleiðingum hrunsins einnig góð skil í lok september undir fyrirsögninni Ísland einu ári síðar: Lítil eyja í miklum vandræðum.

Í tilkynningu frá InDefence hópnum kemur fram að aðför breskra stjórnvalda að íslensku samfélagi hafi komið Íslendingum gersamlega í opna skjöldu og breytti erfiðri stöðu í efnahagslegt hrun.

„Bresk yfirvöld létu sér þó neyð Íslendinga í léttu rúmi liggja og tóku í kjölfarið einnig yfir starfsemi Kaupþing Singer & Friedlander sem leiddi til falls Kaupþings á Íslandi. Til samanburðar má nefna að markaðsvirði Kaupþings á þessum tíma var svipað og svokölluð Icesave skuldbinding.

Bresk yfirvöld héldu Íslandi að þarflausu á hryðjuverkalistanum í rúmlega átta mánuði eða til 15. júní 2009 og ollu með því Íslendingum ómældum skaða um víða veröld. Beiting hryðjuverkalaganna rýrði meðal annars verðmæti eigna sem annars hefði verið hægt að nýta til endurgreiðslu til eigenda sparifjárreikninga í íslenskum bönkum bæði í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi, þar á meðal Icesave reikninganna.

Bresk stjórnvöld hafa enn ekki sýnt íslenskri þjóð þá lágmarksvirðingu að gefa upp ástæður fyrir því að þessi harkalega leið var farin í stað þess að nota önnur úrræði sem bresk lög bjóða upp á (Freezing Order, Banking Provision Act).

Einnig hafa bresk stjórnvöld hvorki beðist afsökunar á því að hafa sett herlausa og friðsama þjóð opinberlega í flokk með verstu hryðjuverkasamtökum heims s.s. Al Qaeda og Talibana, né sýnt nokkra tilburði til þess að bæta Íslendingum það gríðarlega tjón sem þessi aðgerð olli.

Mismunandi kenningar eru uppi um það hvers vegna þessum lögum var beitt. Spurningar hafa vaknað hvort frægt Kastljósviðtal við þáverandi seðlabankastjóra og símasamtal Alister Darling, fjármálaráðherra Breta, við þáverandi fjármálaráðherra Íslands hafi valdið þessum öfgafullu viðbrögðum breskra stjórnvalda.

Önnur kenning tengist bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers, en um miðjan september 2008 færði Lehman bankinn 8 milljarða Bandaríkjadollara frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Yrðu slíkir fjármagnsflutningar almennir hefði það þýtt gríðarlegt tjón breska ríkisins og því hafi breska ríkisstjórnin talið nauðsynlegt koma í veg fyrir að önnur fjármálafyrirtæki fylgdu í kjölfarið. Hún hafi því notað tækifærið og sett án raunverulegrar ástæðu hryðjuverkalög á Ísland til þess eins að neyð Íslands yrði öðrum löndum og fjármálastofnunum víti til varnaðar.

Vegna óánægju með aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda stofnuðu nokkrir einstaklingar hópinn In Defence of Iceland. InDefence hóf undirskriftasöfnun gegn beitingu hryðjuverkalaganna á vefslóðinni indefence.is sem fljótt óx í stærstu undirskrifasöfnun Íslandssögunnar, ásamt því að safnað var ljósmyndum af fólki á Íslandi og erlendis sem vildi mótmæla framferði breskra yfirvalda. Hópurinn vann jafnframt að því byggja brú yfir til bresks almennings og koma málstað Íslands á framfæri í fjölmiðlum víða um heim.

Í mars síðastliðnum afhenti InDefence hópurinn breska þinginu tæplega 84 þúsund undirskriftir gegn beitingu hryðjuverkalaganna og minnti við það tækifæri á að slíku valdi fylgir mikil ábyrgð. InDefence hópurinn telur ámælisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gripið til viðeigandi aðgerða á því ári sem liðið er frá beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi.

Ekkert mat hefur farið fram á þeim efnahagslega skaða sem íslenskur efnahagur hefur orðið fyrir vegna þeirra í nútíð og framtíð og skorar InDefence á íslensk stjórnvöld að fá óháða erlenda rannsóknarstofnun til að meta þann skaða. Ef sá skaði er umtalsverður, þá ber íslenskum stjórnvöldum að krefjast fébóta.

Hópurinn telur þetta sérlega mikilvægt í ljósi þeirrar hörku sem Bretar og Hollendingar hafa beitt til að þvinga Íslendinga til að greiða hverja krónu af hinni svokölluðu Icesave skuldbindingu. Í ljósi beitingar hryðjuverkalaganna væri sanngjarnt að Bretar og Hollendingar fengju í sinn hlut þrotabú Landsbankans og Bretar bæti þannig Íslendingum og Hollendingum það tjón sem þeir unnu á eignasafni Landsbankans.

Er þá enn ótalið það tjón sem beiting hryðjuverkalaganna olli á öðrum efnahagslegum hagsmunum Íslands. InDefence skorar á ríkisstjórn Íslands að láta meta þann skaða sem hryðjuverkalögin ollu Íslandi og haldi því mati til haga í núverandi samningaviðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld," að því er segir í fréttatilkynningu frá InDefence.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert