Fréttaskýring: Óveðursský yfir aðildarumsókn

Evrópuþingið í Brussel
Evrópuþingið í Brussel Reuters

Það markmið spænsku ríkisstjórnarinnar að nánast verði búið að ganga frá aðildarumsókn Íslendinga um mitt næsta sumar þykir mjög óraunhæft. Icesave-málið hefur þar sitt að segja.

Vaxandi titrings er farið að gæta í Brussel um að aðildarumsóknar Íslendinga að ESB bíði sömu örlög og umsóknar Norðmanna, sem felldu aðildarsamninginn í tvígang, árin 1972 og 1994.

Þetta staðfesta heimildarmenn Morgunblaðsins, sem kjósa að gæta nafnleyndar, en þeir byggja þetta stöðumat á samræðum við sérfræðinga í Brussel að undanförnu.

Ef rétt reynist gæti þetta sett strik í reikninginn í aðildarferlinu en stefnt er að því að leiðtogaráð sambandsins samþykki aðildarumsóknina í desember og að hún verði þar með tilbúin til meðferðar hjá Spánverjum þegar þeir taka við forystu í sambandinu af Svíum á nýársdag.

Nú eru hins vegar líkur á að afgreiðslan frestist þar til í mars, þegar leiðtogaráðið kemur næst saman og gæti sú von Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, að sjást muni í land í aðildarferlinu þegar í júní á næsta ári, nokkrum vikum áður en Belgar taka við formennsku í sambandinu, því brugðist.

Óraunhæfar væntingar?

Þessi yfirlýsing Moratinos vakti athygli og kemst einn viðmælenda blaðsins svo að orði að hann hafi verið þeirrar skoðunar frá upphafi að þessi tímarammi stæðist ekki enda mætti ekki vanmeta hversu langan tíma aðildarferlið tæki. Tólf mánuðir væru mjög góður gangur enda þyrfti að vanda til verksins.

Meginhindrunin á þessari vegferð er augljós enda liggur nánast fyrir að Bretar og Hollendingar taki umsókn Íslendinga ekki til greina fyrr en búið er að afgreiða Icesave.

Þetta stóra mál hefur ítrekað verið sett í samhengi við aðildarumsókn Íslendinga í íslenskum fjölmiðlum, tenging sem ekki hefur farið fram hjá embættismönnum í Brussel, sem hafa hér á sínum snærum mannskap til að fylgjast með og þýða það sem sagt er um umsóknina á Íslandi.

Þegar erlendir embættismenn sjá haft eftir fulltrúum stjórnvalda að Bretar og Hollendingar beiti óeðlilegum aðferðum til að þvinga fram lausn Icesave-málsins bætist það við vitneskju um að stjórnin sem lagði fram umsóknina standi höllum fæti, rambi jafnvel á barmi stjórnarslita.

 Ómeðvituð stjórnmálastétt

Inntur eftir þessu stöðumati segir Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í Evrópumálum við Háskólann á Bifröst, íslenska stjórnmálamenn ekki meðvitaða um þá stórauknu athygli sem erlendir aðilar sýni íslenskum innanlandsmálum eftir hrunið. Þegar rætt sé um nánustu samstarfsþjóðir landsins á þann veg sem gert sé í íslenskri þjóðmálaumræðu hafi það pólitísk áhrif, sem aftur komi fram í minnkandi áhuga margra Evrópusambandsríkja á að fá Íslendinga inn í sambandið.

Þá geti sterkar vísbendingar um að ekki sé traust pólitískt bakland á bak við umsóknina haft neikvæð áhrif á samningaferlið og jafnvel leitt til þess að margar Evrópusambandsþjóðir hafi ekki sama áhuga á að fá Íslendinga í sambandið. Sá áhugi hafi dvínað frá því í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert