Hærra lán ekki í boði

Jóhanna Sigurðardóttir ásamt Jens Stoltenberg og Anders Fogh Rasmussen, þáverandi …
Jóhanna Sigurðardóttir ásamt Jens Stoltenberg og Anders Fogh Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Dana, á fundi á Íslandi í febrúar. Reuters

Norskur netmiðill segir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi sent Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, tölvupóst í vikunni og spurt hvort það komi til greina að norsk stjórnvöld bjóði Íslandi allt að 2000 milljarða króna lán án skilyrða um lausn Icesave-deilunnar. Stoltenberg hafi í gær svarað tölvupóstinum neitandi.

Fram kemur á vefnum ABC Nyheter að Jóhanna hafi sent Stoltenberg tölvupóst á mánudag og spurt hvort það komi virkilega til greina að Norðmenn láni Íslendingum allt að 100 milljarða norskra króna án skilyrða. Per Olaf Lundteigen, þingmaður norska Miðflokksins, hefur fengið umboð flokks sínn til að vinna að slíku samkomulagi og forsvarsmenn Framsóknarflokksins hafa átt fundi í Noregi með stjórnmálaforingjum um málið í vikunni.

Norðmenn hafa þegar boðið Íslendingum lán að fjárhæð rúmlega 90 milljarða króna í samvinnu við hin Norðurlöndin. Ekki er hins vegar búið að ganga endanlega frá þeim lánasamningi en Norðmenn setja það skilyrði að Íslendingar hafi áður uppfyllt kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Framkvæmdastjórn sjóðsins hefur ekki enn fjallað um endurskoðun á samningi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er fullyrt að það sé aðallega vegna þess að Icesave-deilan við Breta og Hollendinga er enn óleyst.

ABC segir, að Stoltenberg hafi í tölvupósti, sem hann sendi Jóhönnu í gær, útilokað að Norðmenn veiti Íslandi hærra lán og jafnframt  ítrekað að Ísland verði að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en hægt sé að afgreiða upphaflega lánið.

„Þegar Noregur ásamt Danmörku, Finnlandi og Svíþjóða, gaf loforð um lán í nóvember sl., var það meðal annars háð því að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, þar á meðal skuldbindingar um innlánstryggingar. ...Þessi skilyrði voru grundvöllur þess að norski seðlabankinn veitti Seðlabanka Íslands lán og Stórþingið samþykkti að veita ríkisábyrgð fyrir því láni," segir ABC m.a. að standi í tölvupósti Stoltenbergs.  

 ABC Nyheter segja að hvorki Heikki Holmås, talsmaður Sósíalíska vinstriflokksins í fjárlaganefnd norska þingsins, né Per Olaf Lundteigen, þingmaður Miðflokksins, hafi haft vitneskju um þetta afdráttarlausa svar forsætisráðherrans.

Frétt ABC Nyheter

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert