Óttast um uppgræðslu á Landeyjasandi

Frá Bakkafjöru
Frá Bakkafjöru Ljósmynd/Emil Thor

Átakaveður hefur verið á Bakkafjöru í dag, þar sem unnið er að byggingu Landeyjahafnar. Mikil uppgræðsla hefur verið á söndunum við Landeyjar undanfarin ár og tekist vel til en nú er hugsanlegt að tjón hafi orðið á gróðri á vegna veðurofsans.

„Við höfum ekki haft tækifæri til að ganga úr skugga um það ennþá enda ekkert ferðaveður, en við höfum að sjálfsögðu áhyggjur,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.

„Þetta eru erfiðar aðstæður en það hjálpar til að það hefur verið mikil úrkoma líka svo jarðvegurinn er ekki eins þurr. Þegar óveðrið hófst var talsvert moldrok á mörkum afrétta og byggða en það hefur dregið úr því og við vonum að þessi mikla væta í bland við vindinn hafi bjargað þessu fyrir horn.“

Nauðsynlegt var að ráðast í uppgræðsluna á Landeyjasandi til að gera framkvæmdir við höfnina mögulega en laus jarðvegurinn gerir aðstæður erfiðar.  Melgresi hefur verið sáð í sandinn og gefið góða raun. „Íslenska melgresið er ótrúlegt, það er sterkt og þolir mikil áföll. Ef uppgræðslan hefur bjargast þá er það fyrst og fremst íslenska melgresinu að þakka,“ segir Sveinn sem hyggst kanna aðstæður á Bakkafjöru þegar veðrinu slotar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert