Mun ekki biðjast afsökunar

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður.
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir ekki koma til greina að hann biðjist afsökunar vegna ummæla sem hann lét falla fyrr í dag um að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði reynt að leggja stein í götu þeirra sem eru að reyna fá lán frá Norðmönnum.

Jóhanna hefur fengið bréf frá Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, þar sem segir að Norðmenn séu ekki tilbúnir til að lána Íslendingum 2000 milljarða. Höskuldur segir að hvorki hann né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi nokkurn tímann farið fram á þessa upphæð frá Noregi. Per Olaf Lundteigen, þingmaður norska Miðflokksins, hafi í vor nefnt að til greina kæmi að lána allt að 2000 milljarða.

Jóhanna var mjög harðorð í garð framsóknarmanna fyrr í dag og sagði við mbl.is,  að málflutningur þeirra væri þvættingu og dónaskapur.

„Jóhanna ætti að kynna sér málið áður en hún fer af stað og sendir bréf til Noregs um hvort Norðmenn séu tilbúnir að lána Íslendingum 2000 milljarða. Við höfum aldrei farið fram á slíka upphæð og því augljóst hvert svarið við slíkri spurningu yrði,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert