Stefnir í skelfilegri stöðu verði ekkert gert

Ef ekkert verður að gert stefnir í enn skelfilegri stöðu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Við það verður ekki unað, að því er segir í kjaramálaályktun Starfsgreinasambandsins sem lauk í gær.

Mikil eining var meðal þeirra 135 fulltrúa sem sóttu þingið hvaðanæfa að af landinu, en þemað var Atvinnulíf á okkar forsendum. Til þess að svo megi verða þarf að ljúka erfiðum málum eins og Icesave sem að mati SGS standa ívegi endurreisnar hagkerfisins.   

Ályktun Starfsgreinasambandsins má lesa í heild hér að neðan:

Ályktun um efnahags-, kjara- og atvinnumál

 

„Þing Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags-, kjara- og atvinnumála.

Fyrir einungis þremur mánuðum undirrituðu verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin samkomulag, Stöðugleikasáttmála, sem ætlað var að vera leiðarvísir út úr kreppunni. Samtímis voru undirritaðir kjarasamningar þar sem áhersla var lögð á að verja kjör þeirra tekjulægstu með sérstakri hækkun kauptaxta. Þannig var öryggisnetið varið.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda gengur erfiðlega að hrinda í framkvæmd mörgum af þeim brýnu málum sem aðilar sáttmálans sannmæltust um. Vextir eru enn háir, verðbólga mikil, gengið veikt og ennþá bólar lítið á þeim fjárfestingum sem tryggja áttu nýja sókn í atvinnumálum. Allt þetta kann að leiða til þess að kjarasamningar verði í uppnámi um næstu mánaðarmót.

Ef ekkert verður að gert stefnir í enn skelfilegri stöðu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Við það verður ekki unað. Ljúka verður erfiðum málum eins og Icesave, sem standa í vegi endurreisnar hagkerfisins. Þá verður að ljúka endurskipulagningu og endurfjármögnun bankanna og skapa þarf skilyrði fyrir því að vextir geti lækkað hratt og gengið styrkst. Mikilvægt er að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara í því að efla hér atvinnu með því að stuðla að fjárfestingum í atvinnulífinu. Það er ekki ásættanlegt að ráðherrar í ríkisstjórninni vinni gegn stöðugleikasáttmálanum og leggi steina í götu stórframkvæmda.  Jafnframt er gerð sú krafa að ríkisstjórnin skýri þegar þær hugmyndir sem settar eru fram í fjárlagafrumvarpinu um orku- og auðlindaskatta og að verkalýsðhreyfingin fái að koma að útfærslu þeirra. Óvissan um framkvæmd skattlagningarinnar skaðar möguleika okkar á stórfjárfestingum.

Þing Starfsgreinasambandsins telur mikilvægt að standa vörð um stöðu þeirra tekjulægstu með því að aðilar vinnumarkaðarins tryggi að kjarasamningar haldi gildi sínu til loka samningstímans. Þá krefst þingið þess að ríkistjórnin standi við þau fyrirheit að persónuafsláttur hækki milli ára, sem er forsenda gildandi kjarasamnings. Jafnframt er mikilvægt að barna- og vaxtabætur hækki.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert