„Enn í hálfgerðu sjokki“

Þórdís Lilja Gísladóttir.
Þórdís Lilja Gísladóttir. Ómar Óskarsson

„Þetta er alveg stórkostlegt og ég er enn í hálfgerðu sjokki að hafa hlotið þetta,“ segir frjálsíþróttakonan Þórdís Lilja Gísladóttir sem um næstu helgi tekur á móti sérstakri viðurkenningu frá Evrópska frjálsíþróttasambandinu í Búdapest.

Viðurkenninguna fær Þórdís fyrir einstakt framlag sitt til frjálsíþrótta og nefnist upp á enska tungu The European Athletics Women's Leadership Award. Þetta er í fyrsta skipti sem hún er veitt en frjálsíþróttasambandið vill vekja athygli á starfi kvenna innan frjálsíþrótta í Evrópu. Þórdís bendir á að þrátt fyrir að kynjahlutföll keppenda séu því sem næst jöfn séu ekki nema örfá prósent kvenna í nefndum og stjórnum hjá alþjóðasambandinu og ólympíuhreyfingunni.

Þórdís segir Ísland standa framar en fjölmörg önnur lönd þegar kemur að hlutfalli kvenna í nefndum og viðurkenningin verði hvatning til þess að halda áfram á sömu braut. „Ég tek við þessari viðurkenningu fyrir hönd allra þeirra kvenna sem lagt hafa sitt af mörkum,“ segir hún.

Aldamótahópur afreka

Mikið verður gert úr afhendingu viðurkenningarinnar í athöfn sambandsins í Búdapest á laugardag. Á sama tíma verða veittar aðrar viðurkenningar til frjálsíþróttafólks, s.s. fyrir bestan árangur. En á meðan þeir sigurvegarar taka aðeins á móti sínum verðlaunum flytur Þórdís ræðu, s.s. um það hvernig hægt sé að auka hlut kvenna.

Þórdís hóf snemma að æfa og keppa í frjálsum íþróttum. Hún var í íslenska landsliðinu til 25 ára og fyrirliði þess í 15 ár. Hún keppti á tvennum Ólympíuleikum, sex heimsmeistaramótum, einu Evrópumeistaramóti utanhúss og tvisvar innanhúss.

Frá því hún hætti að keppa hefur hún unnið ötullega að framgangi frjálsra íþrótta, sér í lagi í grasrótarstarfi. Undanfarin 15 ár hefur hún ásamt eiginmanni sínum, Þráni Hafsteinssyni, starfað hjá ÍR. Þau bjuggu m.a. til nýtt þjálfunarkerfi fyrir ungmenni og var það tekið í notkun árið 2000. Í ár vann svo ÍR bikarkeppnina og var uppistaðan í sigurhópnum krakkarnir sem byrjuðu að æfa upp úr aldamótum. Jafnframt er Þórdís sviðsstjóri í íþróttafræði við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.

S&S

Hvernig var valið?

Frjálsíþróttasamband Evrópu óskaði eftir því við aðildarsambönd sín að þau sendu tilnefningar. Aðildarsamböndin eru fimmtíu talsins og samkeppnin því hörð.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskaði sjálft eftir tilnefningum og var Þórdís valin úr hópi tíu kvenna í byrjun september síðastliðins.

Hringt var í Þórdísi í síðustu viku og hún fyrst spurð hvort hún gæti verið viðstödd athöfnina í Búdapest þar sem hún væri á meðal fimm kvenna sem kæmi til greina að verðlauna. Þegar ekki var víst að Þórdís gæti verið viðstödd var henni tjáð að hún þyrfti eiginlega að mæta. Hún hefði orðið hlutskörpust.

Hvert er markmiðið?

Eitt markmiða með þessari viðurkenningu er að vekja athygli á hinu mikilvæga framlagi almennra kvenleiðtoga innan hreyfingarinnar.

Í hverju keppti Þórdís?

Þórdís byrjaði snemma að æfa og keppa í frjálsum íþróttum. Hún á t.a.m. enn Íslandsmetið í hástökki kvenna utanhúss. Keppti tvisvar á Ólympíuleikum, fyrst árið 1976 í Montreal í Kanada, þá aðeins 16 ára gömul.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert