Flensan breiðist hratt út

Von er á fyrstu sendingunni af bóluefni gegn svínaflensu til …
Von er á fyrstu sendingunni af bóluefni gegn svínaflensu til landsins í vikunni. Reuters

Inflúensa breiðist hratt út þessa dagana og hraðast á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis, sem segir líklegt að aðallega sé um að ræða H1N1 veiru, svonefnda svínaflensu.

Frá 29. júní til 11. október bárust embættinu samtals 2545 tilkynningar um inflúensulík einkenni eða staðfesta inflúensu samkvæmt skráningum lækna í rafrænar sjúkraskrár. Þar af voru 1184 karlar og 1361 konur. Í síðustu viku tvöfaldaðist vikulegur fjöldi tilfella miðað við vikuna á undan. 

Að sögn sóttvarnalæknis hefur álag aukist töluvert á heilbrigðisþjónustuna, bæði í heilsugæslunni og á Landspítalanum.
Inflúensan eykst einnig á landsbyggðinni en ekki eins hratt og á höfuðborgarsvæðinu. 

Svo virðist sem lítið hafi verið um inflúensu á landsbyggðinni í síðustu viku en um helgina og í fyrri helming þessarar viku virtust veikindi aukast í samfélaginu öllu með miklum fjarvistum í stöku skólum úti á landi en minna var um veikindi í öðrum skólum. Álag á heilbrigðisþjónustuna virðist ekki hafa aukist verulega á landsbyggðinni enn sem komið er en töluvert er um símhringingar vegna veikinda.

Flestir sem eru með einkenni inflúensu eru á aldrinum 15–34 ára. Töluvert er um inflúensu hjá fólki milli 40–59 ára en eftir sextugt fækkar tilfellum verulega.

Skráning á einkennum inflúensu byggir á sjúkdómsgreiningum sem læknar á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum í landinu skrá í rafræna sjúkraskrá. Sjúkdómsgreiningin er langoftast byggð á klínísku mati læknis en er í stöku tilfellum einnig staðfest með sýnatöku. 

Rauði krossinn bendir á að hægt er að hafa samband við 1717 hjálparsíma samtakanna til að fá almennar upplýsingar um flensuna. 

Inflúensuvefur landlæknisembættisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert