Hagsmunir Íslands í fyrirrúmi

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Eggert Jóhannesson

Illugi Gunnarsson sagði það vonbrigði að Íslendingar hyggist á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn ekki sækja áfram þá undanþágu sem fékkst með Kyoto-bókuninni. Umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir segir að stjórnarandstaðan leitist við að skrumskæla umræðuna og að ekki standi annað til en að verja hagsmuni Íslands í viðræðunum. 

Illugi sagði misskilning ríkja um eðli undanþágunnar sem fengist hafi með Kyoto-bókuninni. Eðli hennar sé að þar sem á Íslandi sé hægt að framleiða með hreinni og betri orku sé rétt að veita auknar heimildir hér á landi á forsendum umhverfisverndar. „Það er því skelfilegt til þess að vita að margir Íslendingar túlki þetta sem eitthvað sóðaákvæði,“ sagði Illugi í utandagskrárumræðum á Alþingi. 

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra sagði ekki standa annað til en að verja hagsmuni Íslendinga. Svandís sagði að stjórnarandstöðuþingmenn hafi að því er virðist vísvitandi reynt að skrumskæla umræðuna um samningsmarkmið Íslands í Kaupmannahöfn. „Að halda því fram að til standi að standa ekki vörð um hagsmuni Íslands á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn er fráleitt,“ sagði umhverfisráðherra. Starfi samninganefndarinnar sé hvergi lokið en Ísland ætli sér að axla sinn skerf af ábyrgð í loftslagsmálum en óska ekki eftir undanþágum. 

„Markmiðin varða ímynd Íslands og starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja en fyrst og fremst þau að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja heims er varðar losunarmarkmið fyrir Kaupmannahafnarfundinn, “sagði Svandís Svavarsdóttir. Hún sagði ráðlegt að samninganefndin kæmi á fund nefnda í þinginu til að koma í veg fyrir misskilning sem virtist þar ganga ljósum logum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert