Segir fyrningarleið ruddaskap

Arthúr Bogason á aðalfundi smábátamanna í morgun.
Arthúr Bogason á aðalfundi smábátamanna í morgun. Morgunblaðið / Sigurður Bogi

Það er fullkominn ruddaskapur að tala um innköllun veiðiheimilda án þess að taka skuldir fyirtækjanna og einstaklinganna þar inn í. Þetta kom fram í máli Arthúrs Bogasonar formanns Landssambands smábátaeigenda í setningarávarpi á aðalfundi samtakanna í morgun.

„Finnst talsmönnum fyrningarleiðarinnar það sjálfsagt að sjávarútvegsfyrirtækin, stór sem smá séu skilin eftir með skuldirnar, skuldir sem breyttust í hrein og klár skrímsli við gengishrun krónunnar,“ sagði Arthúr í ávarpi sínu.

Arthúr sagði að árið 2007 hefði menn innan Háskóla Íslands sagði að Íslendingar myndu hagnast mest á því að leggja af þorskveiðar til nokkurra ára. Í því efni væri ekki nema vonlegt að þjóðin væri illa stödd.

„Er nema von að maður spyrji hvort þeim skatttekjum landsmanna sem varið var til að mennta þessa aðila hafi verið skynsamlega ráðstafað. Fyrir mína parta þá vil ég fá endurgreitt,“ sagði Arthúr sem fullyrti að ekkert gyldi íslenska þjóðin dýrari verði en stærðfræðikukl Hafrannsóknarstofnunar. Þar ræki hvað sig í annars horn.

“Strandveiðikerfið, eða handfærakerfið eins og ég tel réttnefni er fagnaðarefni. Ég skil fullkomlega gremju þeirra sem hafa nýverið keypt dýrum dómum veiðiheimildir aðila sem héldu bátunum og fóru á skak í sumar sem ekkert væri.

Það samrýmist hinsvegar illa okkar eigin málflutningi að tala um deyjandi sjávarbyggðir annars vegar og kvarta yfir löndunarbið hinsvegar,“ sagði Arthúr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert