Óviðunandi niðurstaða

Bjarni Benediktsson kemur á fund í Stjórnarráðinu.
Bjarni Benediktsson kemur á fund í Stjórnarráðinu. mbl.is/Kristinn

Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, segja að sú niðurstaða, sem ríkisstjórnin hefur í dag kynnt í Icesave-málinu, sé óviðunandi. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði einnig að sér litist illa á málið.

Bjarni sagði, eftir fund með oddvitum ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu síðdegis, að viðunandi niðurstaða í samningum fæli það í sér að báðir aðilar hefðu gefið eitthvað eftir.

„Það hafa Bretar og Hollendingar ekki gert, þeir fá allt sitt með vöxtum," sagði Bjarni.

Hann vildi ekki segja til um hvort hann teldi að þingið myndi samþykkja nýtt frumvarp um ríkisábyrgð. „Ég er mjög ósáttur við að við gefum frá okkur réttinn til að láta reyna á réttarstöðu okkar á sama tíma og við föllumst á allar kröfur Breta og Hollendinga. Mér finnst augljóst að þetta er óviðunandi niðurstaða."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að sér litist afleitlega á þessa niðurstöðu. „Það er búið að kollvarpa því sem Alþingi samþykkti. Það stefnir í að við gefum frá okkur allan lagalegan rétt okkar endanlega."

Hann sagðist ekki sjá fyrir sér, að nýtt frumvarp um ríkisábyrgð verði samþykkt á Alþingi miðað við allan aðdraganda málsins.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði eftir fundinn, að sér sýndist málið vera í þeim búningi að hún ætti afar erfitt með að kyngja því. Hún sagðist þó ætla að skoða málið betur með hagfræðingi sínum áður en hún tæki endanlega afstöðu til þess.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur til fundarins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur til fundarins. mbl.is/Kristinn
Birgitta Jónsdóttir kemur í Stjórnarráðið.
Birgitta Jónsdóttir kemur í Stjórnarráðið. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert