Sagði framkomu Steingríms hneyksli

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Ómar

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var harðorður í garð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi fyrir stundu og sakaði hann um hneysklanlega framkomu í garð Tryggva Þórs Herbertssonar.

Steingrímur var að svara fyrirspurn frá Tryggva Þór um Icesave-málið þegar Tryggvi Þór kallaði úr salnum: „þið eigið ekki að lyppast niður.“ Svaraði Steingrímur þá: „Já, þú ættir nú að þekkja það Tryggvi. Þú ert nú hár í loftinu.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, varaforseti Alþingis, svaraði athugasemd Birgis við fundarstjórn hennar með því að biðja þingmenn um að gæta hófs í málflutningi sínum.

Birgir gerði einnig athugasemd við að stjórnvöld hefðu í dag skrifað undir nýtt Icesave-samkomulag og það bryti í bága við lög, sem sett voru um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldindinganna frá því í ágústlok.

Ragnheiður sagði að samkomulagið hefði verið undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis. Til standi að frumvarp um málið komi til kasta Alþingis þar sem það fái þinglega meðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert